146. löggjafarþing — 70. fundur,  24. maí 2017.

brot ráðherra gegn jafnréttislögum.

[10:52]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Frú forseti. Hæstv. forsætisráðherra, oddviti og verkstjóri ríkisstjórnarinnar, stóð frammi fyrir því í fyrra þegar hann var fjármála- og efnahagsráðherra að velja á milli karls og konu í stjórnunarstarf í fjármálaráðuneytinu. Hæfnisnefnd hafði metið konuna í það minnsta jafn hæfa og karlinn og ljóst er að það hallar á konur í stjórnendastörfum í ráðuneytinu. Mat kærunefndar um jafnréttismál var það að hæstv. ráðherra hefði brotið jafnréttislög enda eru lögin skýr um það að þegar hallar á annað kynið og um jafn hæfa einstaklinga er að ræða eigi að ráða það kynið sem hallar á. Þetta skýra lagaákvæði hunsaði hæstv. forsætisráðherra og ákvað að ráða karlinn og braut þannig jafnréttislög.

Hæstv. forsætisráðherra, Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, hafði áður lýst þeirri eindregnu skoðun sinni að sá ráðherra sem bryti jafnréttislög ætti umsvifalaust að segja af sér, en hann gerir ekki þá sömu kröfu til sjálfs sín og situr sem fastast. Núverandi ráðherra Viðreisnar, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, fyrrverandi varaformaður Sjálfstæðisflokksins, fór einnig mikinn í umræðunum á sínum tíma og staðhæfði að ráðherra sem fengi slíkan úrskurð væri í djúpum skít, eins og hún orðaði það þá. Nú heyrist hins vegar ekkert í hæstv. sjávarútvegsráðherra, Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, þótt slíkt brot hafi framið fyrrverandi samflokksmaður hennar og náinn samstarfsmaður. Og nú situr Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir í ríkisstjórn sem kveðst leggja sérstaka áherslu á jafnréttismálin.

En hvað segir hæstv. jafnréttisráðherra? Lítur hann það ekki alvarlegum augum að sjálfur forsætisráðherrann hafi brotið jafnréttislög með svona skýrum hætti? Var hæstv. jafnréttisráðherra ánægður með viðbrögð forsætisráðherrans við úrskurði kærunefndarinnar ? Ætlar hann að krefjast þess að farið sé að jafnréttislögum (Forseti hringir.) og að það hafi afleiðingar ef þau eru brotin?