146. löggjafarþing — 70. fundur,  24. maí 2017.

mannréttindi og NPA-þjónusta.

[10:59]
Horfa

Halldóra Mogensen (P):

Frú forseti. Það er skilningur minn á hlutverki félags- og jafnréttismálaráðherra að honum beri að standa vörð um mannréttindi fólks í landinu. Mannréttindi samkvæmt skilgreiningu Mannréttindaskrifstofu Íslands færir einstaklingum jafnrétti og virðingu. Þau tryggja að allir hafi aðgang að grundvallarþörfum eins og fæðu og húsaskjóli. Hvar einstaklingur býr, hvar foreldrar hans eru, hvaða ríkisstjórn stjórnar í landi hans gildir einu þegar mannréttindi eiga í hlut, þau eru alltaf réttindi allra einstaklinga. Mannréttindi varðveita réttinn til þátttöku í samfélaginu, réttinn til að stunda vinnu og sjá fyrir sjálfum sér.

Ég hefði talið það liggja í augum uppi að þegar félags- og jafnréttismálaráðherra fer af stað í þá mikilvægu vegferð að innleiða notendastýrða persónulega aðstoð, eða NPA, í íslensk lög yrði haft að leiðarljósi að réttindi eru allra, ekki aðeins hluta. Hvernig er hægt að réttlæta það að aðeins hluti þeirra sem fatlaðir eru hafi aðgang að NPA? Það er hægt að tala um kostnað, en er það raunverulega svo að hægt sé að takmarka réttindi fólks vegna þess að þau kosta of mikla peninga?

Í grunnstefnu Viðreisnar kemur fram, með leyfi forseta:

„Áhersla er lögð á jafna stöðu og jöfn réttindi allra einstaklinga óháð kynferði, trúarbrögðum, skoðunum, uppruna, kynþætti, litarhætti, kynhneigð og stöðu að öðru leyti.“

Þarna er ekki talað um jöfn réttindi takmarkaðs fjölda einstaklinga eftir fjármagni heldur allra einstaklinga.

Samkvæmt úttekt Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands er umframábati til samfélagsins á innleiðingu NPA meiri en kostnaður sem hlýst af, en í úttektinni kemur fram, með leyfi forseta:

„Umframábati af NPA er að jafnaði 9–12 milljónir króna á ári, en umframkostnaður 3,5 milljónir. Þjóðfélagslegur ábati og kostnaður vegna skatta sem tengjast þjónustunni er að líkindum innan við eina milljón króna á hvern notanda. Könnunin veitir því skýra vísbendingu um það að ábati þeirra sem njóta þjónustunnar sé meiri en kostnaður samfélagsins vegna þjónustunnar.“

Ef þetta er raunin, hvers vegna ekki að opna bara fyrir þetta og leyfa öllum þeim sem þurfa á þjónustunni að halda að fá hana? Hver eru rökin fyrir því að setja kvóta á NPA?