146. löggjafarþing — 70. fundur,  24. maí 2017.

mannréttindi og NPA-þjónusta.

[11:04]
Horfa

Halldóra Mogensen (P):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Ég hefði talið að það að opna á NPA fyrir alla væri fjárfesting. Að fjárfesta í fólki er vafalaust sú besta fjárfesting sem hægt er að fara í. Hún skilar sér margfalt til baka og er grundvöllurinn að jafnara og farsælla samfélagi fyrir alla. Það á ekki einungis við notendastýrða persónulega aðstoð heldur einnig þegar kemur að málefnum öryrkja, aldraðra, barna, fjölskyldna, og svo má áfram telja.

Alls staðar í starfi mínu með þessari ríkisstjórn rekst ég á þá hugmyndafræði að fólk sem vantar aðstoð sé fjárhagslegur baggi á samfélaginu og er nálgunin þannig. Sér hæstv. ráðherra samborgara sína sem fjárhagslegan bagga á samfélaginu? Eða sér hann ónýttan möguleika á stórkostlegri grósku? Ef möguleiki er til staðar í huga ráðherra, ættum við þá ekki að fjárfesta í réttindum fólks og skapa þannig grundvöll fyrir fólk til að blómstra? Þá er ég ekki bara að tala um suma, heldur alla.