146. löggjafarþing — 70. fundur,  24. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[11:06]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg):

Frú forseti. Einhvern tímann heyrði ég að maður ætti að byrja ræður á brandara, svona til að létta andrúmsloftið og hita salinn. Ég ákvað að gera það ekki, forseta til léttis reikna ég með, heldur ákvað ég að vera nokkuð hefðbundinn og byrja bara á byrjuninni. Ég fletti upp kynningu fjármálaráðuneytis á fjármálaáætlun og þar stendur, með leyfi forseta:

„Á næstu árum verður sérstök áhersla á uppbyggingu innviða og eflingu velferðarkerfisins, m.a. með stórauknum útgjöldum til heilbrigðis- og menntamála.“

Þá rann náttúrlega upp fyrir mér að þetta er brandari. Það er brandari að halda því fram að þessi ríkisfjármálaáætlun sýni eflingu innviða, sýni eflingu velferðarkerfis, sýni styrkingu menntakerfis. Þetta væri brandari ef þetta væri ekki jafn alvarlegt og raun ber vitni.

Mér fannst tillaga ráðherra að þingsályktun um fjármálaáætlun vera lélegt plagg þegar ég fékk hana fyrst í hendurnar en eftir því sem ég les hana meira þá finnst mér hún verri. Á heimasíðu ráðuneytisins rifjaðist líka upp fyrir mér að eins og oft vill verða með ráðherra byrjaði hæstv. fjármálaráðherra þessa vegferð á glærusýningu þar sem hann setti fram helstu áherslumál í slagorðastíl. Á þeim tíma sem er liðinn síðan þessi kynning var haldin hefur afstaða mín til þessara slagorða breyst örlítið. Hér er til dæmis glæra um menntamál með tveimur atriðum. Annað er: Háskólar fá meira fé til að auka gæði. Hitt er: Hús íslenskunnar rís.

Ég áttaði mig ekki á því fyrr en ég las þetta núna aftur að þetta er eins og krossapróf. Annað af þessu er rétt, hitt er rangt.

Hið sama gerðist þegar ég fletti á glæru sem ber yfirskriftina: Innviðir og öryggi. Þar kemur fram að auka eigi fé til samgöngumála sem félagar mínir í umhverfis- og samgöngunefnd munu væntanlega leiða þingheim í allan sannleika um að er ekki rétt. Svo eru tvö atriði sem snerta þá nefnd sem ég sit í og mín umsögn snýst öðru fremur um, allsherjar- og menntamálanefnd. Þar stendur annars vegar: Efling löggæslu um land allt. Hins vegar: Þrjár nýjar þyrlur fyrir Landhelgisgæsluna.

Þarna er annað atriðið rétt og hitt rangt.

Ég ætla að kafa aðeins dýpra ofan í þessi fjögur atriði. Háskólar fá meira fé til að auka gæði. Hvernig mælum við það? Jú, við getum litið til samþykktrar stefnumörkunar Vísinda- og tækniráðs sem segir að stefna skuli að því að meðalútgjöld á nemanda verði til samræmis við það sem er í OECD-ríkjum með það að markmiði að stefna að meðaltali Norðurlandanna þremur árum síðar. Þennan mælikvarða vilja stjórnarliðar stundum lýsa ómarktækan þegar það hentar því að það skipti meira máli hverju við náum fram með peningunum en hversu mikla peninga við leggjum í málin. Það er mantra sem er notuð á flestum málefnasviðum, að það sé ekki magn peninganna sem skipti máli heldur gæði sem fást fyrir þá; mantra sem hentar aðallega þegar verið er að skera niður, virðist vera, sem er reyndin í menntamálum. En við getum líka metið gæði náms eftir því hvað þeir sem standa að því segja. Því vil ég grípa niður í ályktun háskólaráðs Háskóla Íslands þar sem segir, með leyfi forseta:

„Ef fjármálaáætlunin nær óbreytt fram að ganga blasir við fyrir Háskóla Íslands að

skólinn og þar með íslenska þjóðin gæti misst sterka stöðu sína í alþjóðlegum samanburði háskóla;

dregið verður úr námsframboði og frestað nauðsynlegri þróun kennsluhátta;

hætt verður við brýna uppbyggingu innviða rannsókna og nýsköpunar sem létu verulega á sjá í hruninu.“

Þetta bendir ekki til þess að háskólar fái meira fé til að auka gæði. Þetta bendir til hins gagnstæða. Þótt höfundur tillögunnar og helstu aðstandendur hennar hafi verið heldur feimnir við að fá utanaðkomandi álit — það var ekki fyrr en með eftirgangssemi okkar í minni hlutanum sem tillagan var send til umsagnar — er þetta eitthvað sem við eigum að hlusta á. Ég skil svo sem að menn hafi ekki viljað heyra afstöðu háskólastigsins til gæða háskólanáms á sama tíma og við fáum til dæmis fréttir af því að þeir sem stunda listnám á háskólastigi búi við óviðunandi aðstæður, séu í mygluðu húsnæði sem sé löngu kominn tími á að rífa og byggja nýtt yfir starfsemina.

Þetta hét á glærunni hér forðum daga: Háskólar fá meira fé til að auka gæði.

Hitt atriðið, sem þó er satt, er að hús íslenskunnar mun rísa. Þetta er nú ekki í fyrsta sinn sem það loforð er gefið. Það gerði þarsíðasta ríkisstjórn. Síðan var tekið í handbremsuna þegar Sjálfstæðisflokkurinn komst til valda ásamt Framsóknarflokknum en nú sér Sjálfstæðisflokkurinn ástæðu til að halda verkefninu áfram. Gott og vel. Það er mikilvægt verkefni sem fær mig samt til að víkja aðeins að þeirri villandi framsetningu sem er í áætluninni. Eins og kom fram í 1. umr., og við margítrekuðum á hverjum einasta fundi um þetta mál, er blandað saman í áætluninni framlögum til rekstrar og stærri fjárfestinga. Það þýðir að samanburður milli ára skekkist og það er nánast vonlaust fyrir okkur þingmenn, hvað þá fólk úti í samfélaginu, að kafa ofan í tölurnar og sjá hvað stendur að baki þeim.

Þetta lýsir sér þannig í tilfelli háskólans að framkvæmd upp á rúma 3 milljarða skekkir útgjaldarammann þannig að þegar hús íslenskunnar er tekið út fyrir rammann kemur í ljós að á næsta ári á að auka útgjöld til háskólastigsins um 70 milljónir. Úr rúmum 41 milljarði upp í rúman 41 milljarð. Þetta er hækkun sem rúmast innan skekkjumarka, hún er 0,2%. Árið 2019 verður hækkun upp á 2% og svo loksins árið 2020 upp á 3,9% en þá förum við vonandi að losna við þessa ríkisstjórn sem ætlar greinilega að reka sveltistefnu á öllum stigum opinbers rekstrar. Menntamálum sem öðrum.

Skekkjan sem felst í að steypa fjárfestingum inn í rammann með rekstri ýkist þegar við skoðum hús íslenskunnar. Einhverra hluta vegna er mótframlag Happdrættis Háskóla Íslands talið með. Á næsta ári nemur það 510 milljónum. Ef einhver hefði haft upplýsingar til að draga frá framlag ríkisins til húss íslenskunnar fyrir næsta ár hefði hann kannski orðið giska ánægður og séð að framlög til háskólastigsins væru að aukast um rúman hálfan milljarð. Nei, það er ekki reyndin. Þarna er enn eitt bókhaldstrikkið, enn ein óheiðarlega framsetningin sem skekkir myndina og vinnur beinlínis gegn gagnsæi þessarar tillögu, þvert á grunngildi laga um opinber fjármál sem við eigum að vera að vinna samkvæmt hér.

Þá að innviðum og öryggi. Þar nefndi ég tvö atriði, annars vegar eflingu löggæslu um land allt og hins vegar þrjár nýjar þyrlur fyrir Landhelgisgæsluna. Löggæsla verður ekkert efld. Hún er á sama málefnasviði og þyrlurnar sem éta upp alla þá aukningu sem er á málefnasviðinu, því sem næst hverja einustu krónu. Það er kannski ekki nema von að meiri hlutinn hafi ákveðið að setja þrjú markmið til eflingar löggæslu inn í áætlunina og gætt þess sérstaklega að aukinn mannafli væri ekki eitt af þeim markmiðum. Því að sú efling mun ekki eiga sér stað, sú nauðsynlega styrking lögreglunnar, sem í drögum að löggæsluáætlun er talin hlaupa á 200 lögregluþjónum, mun ekki eiga sér stað á þessu tímabili. Þvert á móti. Við fengum umsagnir frá tveimur embættum lögreglustjóra, Suðurlandsumdæmi og Norðurlandi eystra, þar sem hvort um sig sá fyrir sér að veltutengda aðhaldskrafan myndi kalla á fækkun upp á samanlagt 10 lögreglumenn í þessum tveimur umdæmum. Ég reikna ekki með að ráðuneytið hafi gert neina greiningu á því hver áhrifin yrðu á önnur umdæmi. Það hafa verið gerðar nokkrar greiningar í þessu plaggi, en ég held að við megum frekar búast við því að löggæsla verði veikt um allt land, þvert ofan í það sem fjármálaráðherra sagði við kynningu málsins.

Svo er það meira að segja þannig að þau atriði sem eru sönn í þessari áætlun eru ekki endilega til bóta að öllu leyti. Það er til bóta að Landhelgisgæslan fái þrjár nýjar þyrlur til eignar. En við skulum ekki gleyma því að þessi sama Landhelgisgæsla á eina frekar nýlega flugvél sem stóran hluta ársins er leigð suður í höf til að sinna landamæraeftirliti svo að Landhelgisgæslan geti haldið sjó með leigutekjum af flugvélinni. Ég held að meiri hlutinn hefði gott af því að lesa umsögn Landhelgisgæslunnar um fjárþörf stofnunarinnar þar sem kemur í fyrsta lagi fram að hún hefur ekki nægan mannskap til að halda úti björgunarþjónustu á sjó utan 25 sjómílna nema tæplega helming ársins; hún hefur ekki mannskap til að vera með varðskip á sjó nema um 300 daga á ári þannig að tvo mánuði eru skipin bundin við bryggju; og í þriðja lagi, eins og ég nefndi, er hún ekki með flugvél landhelgisgæslunnar hér á landi allt árið um kring vegna þess að hún hefur bara ekki efni á því.

Það er gott að fá nýjar þyrlur en það væri líka ágætt að koma til móts við þessa fjárþörf sem Landhelgisgæslan rökstyður býsna vel í umsögn sinni.

Þetta eru atriði sem komu fram við umfjöllun nefndarinnar, atriði sem rata inn í öll nefndarálit. Það er raunar rauður þráður í öllum nefndarálitum, hvort sem er minni hluta eða meiri hluta, sama í hvaða nefnd það er, að niðurstaða fjármálaáætlunar sé óviðunandi. Við erum á sömu síðu með það en einhverra hluta vegna sjá stjórnarliðar sig knúna til að leggja til að áætlunin sé engu að síður samþykkt. Meiri hluti fjárlaganefndar nefnir til að mynda, með leyfi forseta:

„Meiri hlutinn telur ástæðu til að endurskoða aðhaldskröfu á framhaldsskóla þar sem hagræðing vegna styttingar náms hefur ekki enn komið fram að fullu.“

Ég veit ekki hvort við þurfum að taka meiri hlutann í eitthvert stuðningsnámskeið, einhverja sjálfsöryggis-styrkingu eða hvað það er. Því að það að leggja þetta til en leggja ekki til breytingar á áætluninni á sama tíma og hæstv. fjármálaráðherra segir ítrekað, og endurtók það síðast hér í dag, að taka eigi þennan ramma mjög alvarlega — þennan ramma sem á að samþykkja núna í maí á að taka mjög alvarlega í haust þegar við samþykkjum fjárveitingar innan hans. Það að telja ástæðu til að endurskoða aðhaldskröfu og vera endalaust að segja að huga þurfi að þessum og hinum fjárveitingum án þess að leggja beinlínis fram tillögur um að gera það á þessum tímapunkti — eru þingmenn stjórnarliðsins búnir að gleyma því að við erum fjárveitingarvaldið og það erum við sem ákveðum í atkvæðagreiðslu hér í maí hvernig þetta verður? Eða ætla þau að koma í haust, þau sem í dag hvetja til þessa og hins, og endurprenta nefndarálitin þar sem það „að hvetja til“ verður að „við hörmum að“ og „þetta gerðist einhvern veginn“ og „enginn réði neitt við neitt“? Eða ætla þau að muna eftir hnöppunum sem eru á hverju einasta borði og laga rammann að þeirri fjárþörf sem er fyrir hendi?

Ég nefni bara eitt lítið atriði. Þrátt fyrir að fjármálaáætlun eigi að snúast um stóru línurnar er það býsna lítið en ratar engu að síður í endanlegar tillögur meiri hlutans í fjárlaganefnd. Það er Persónuvernd, stofnun sem fær um 100 milljónir á fjárlögum. Meiri hluti allsherjar- og menntamálanefndar bendir á að í gildandi fjármálaáætlun sé gert ráð fyrir auknum fjárveitingum til stofnunarinnar, horfir reyndar fram hjá því að í fjárlögum sem voru samþykkt í millitíðinni eru þessar fjárveitingar ekki veittar. Fjárlaganefnd segir:

„Bregðast þarf tímanlega við kostnaðarauka vegna nýrrar Evrópureglugerðar um persónuvernd sem kemur til framkvæmda í maí 2018.“

Það er eftir ár. Persónuvernd áætlar að hún þurfi um 100 milljónir til að bregðast við þessari Evrópureglugerð. Útgjaldasvigrúmið á málefnasviðinu sem Persónuvernd er á er 75 milljónir á ári. Það er ljóst að ef við samþykkjum þessa áætlun óbreytta mun þetta litla atriði, þessi litla athugasemd „bregðast þarf tímanlega við“ frá fjárlaganefnd, standa sem dauður bókstafur gegn því að í haust mun verða brugðist við á þessu málefnasviði, þar sem líka eru fjársveltir sýslumenn, útlendingamál sem eru vanáætluð upp á hundruð milljóna í áætluninni, með kostnaðarauka upp á 100 milljónir þar sem svigrúmið er 75 milljónir og þörfin upp á hundruð milljóna.

Frú forseti. Hér er fjárveitingarvaldið. Af hverju vill meiri hlutinn ekki nýta það? Af hverju koma engar breytingartillögur frá meiri hluta sem er sjálfur búinn að margsýna fram á (Forseti hringir.) að þessi áætlun er ónýtt plagg? Henni þarf að breyta.