146. löggjafarþing — 70. fundur,  24. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[11:32]
Horfa

Frsm. 4. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég kom á síðari tímum aðeins inn í allsherjar- og menntamálanefnd þar sem verið var að afgreiða fjármálaáætlun. Hvorki í fjármálaáætlun né á þeim fundum sem ég náði að vera á hjá allsherjar- og menntamálanefnd var talað mikið um Vísinda- og tækniráð eða þá fjármögnun sem fara ætti í varðandi áætlun þeirra sem ekki er tilbúin núna. En við vitum að fyrri áætlun var ekki uppfyllt samkvæmt þeim samningi sem þar lá fyrir, og svo virðist sem næsta áætlun, alla vega miðað við þær tölur sem við finnum í fjármálaáætlun, verði ekki fjármögnuð heldur. Það er spurning hvað verður um samninga og fyrirætlanir Vísinda- og tækniráðs ef ekki er gert ráð fyrir því í fjármálaáætlun.

Að því undanskildu skulum við hafa í huga þegar við skoðum fjárveitingar til háskólastigsins að fyrir utan stofnkostnað og það sem er utan rammans, er um 8,8% hækkun að ræða á þessu tímabili. Miðað við þær forsendur sem við höfum í fjármálaáætlun er gert ráð fyrir rúmum 9% launahækkunum á sama tíma. Það er það sem búist er við. Þá vantar að leiðrétta fyrir þær skerðingar sem opinberir starfsmenn urðu fyrir þegar lífeyrisréttindin voru lækkuð í desember sl. Það vantar framlögin til Vísinda- og tækniráðs inn í þessi 8,8%. Hvaðan eiga þau að koma? Ég skil það ekki. Eru einhver verkefni fram undan? Er eitthvað að hverfa sem hefur ekki komið nægilega skýrt fram í fjármálaáætlun sem gæti útskýrt þetta? Ég hef ekki náð að mæta á alla fundina í allsherjar- og menntamálanefnd þar sem það kom kannski fram. Ég veit það ekki. Ég hef ekki séð það í umsögnunum. Ég klóra mér aðeins í hausnum og spyr bara: Hvaðan koma þessir peningar?