146. löggjafarþing — 70. fundur,  24. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[11:35]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er hræddur um að ég geti ekki svarað miklu. Þessar upplýsingar koma ekki fram. Það kom ekkert fram hvernig efla eigi háskólastigið, á sama tíma og við höldum framlögum til þess varla í horfinu. Það kom ekkert fram um það í nefndinni. Og ég skil ekki frekar en þingmaðurinn af hverju ríkisstjórninni er svona illa við menntamál, eins og þessi áætlun gefur til kynna, að sveltistefnan verður alltumlykjandi þar á næstu árum. Það birtist á öllum skólastigum. Kannski er það tengt því að þessi ríkisstjórn virðist alltaf mjög óbundin af hugmyndum forvera sinna. Vísinda- og tækniráð síðustu ríkisstjórnar samþykkti einhverja áætlun. Á þessi ríkisstjórn að uppfylla hana? Ekki frekar en þessi ríkisstjórn ætlar að uppfylla þingsályktun sem þetta þing samþykkti á síðasta kjörtímabili um að byggja hús yfir náttúruminjasafn. Ekki frekar en núverandi menntamálaráðherra ætlar að uppfylla vilyrði þess síðasta, sem þó er úr sama flokki, um að reisa menningarhús á Egilsstöðum þar sem hann sagði hina gullvægu setningu í viðtali við Austurgluggann um daginn: Ég ritaði ekki undir þá viljayfirlýsingu. Ha? Það er nefnilega mjög auðvelt að firra sig ábyrgð á því að efla háskólastigið ef maður ætlar ekki að efna nein loforð. Svo er náttúrlega hægt að stefna að því að þrengja aðgengi að háskólum, ná meðalframlögum á nemanda upp með því að fækka nemendum. Auðvitað spyr maður sig hvort það sé planið.