146. löggjafarþing — 70. fundur,  24. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[11:38]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að þingmaðurinn hitti naglann á höfuðið þegar hann spyr hvort hér sé stefnubreyting í tölum en ekki texta. Ég held að dæmin séu ótalmörg í þessum texta. Þingmaðurinn nefndi framhaldsskólastigið. Hvenær var rætt um að það ætti að fjórfalda aðhaldskröfu á framhaldsskóla í landinu? Hvenær var það rætt? Það dúkkaði bara allt í einu upp á milli fjármálaáætlana. Í síðustu áætlun var aðhaldskrafan 0,5%, nú er hún allt í einu hlaupin upp í 2%. Þar að auki er þróunin í fjárveitingum til framhaldsskóla þannig að þvert á gefin loforð um að styttingin myndi skila sér inn í framhaldsskólana í eflingu þeirra er peningurinn tekinn út úr kerfinu. Ef við leggjum það allt saman er verið að veikja framhaldsskólastigið um svona 3 milljarða við lok tímabilsins miðað við það sem er í dag. Það eru 10% af framlögum til framhaldsskóla sem er verið að veikja það stig um. (Forseti hringir.) Það er stefnubreyting og hún er ekki sett fram í texta.