146. löggjafarþing — 70. fundur,  24. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[11:40]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Herra forseti. Mig langar að ræða við hv. þingmann um framsetningu, markmiðasetningu og gagnsæi í þeirri fjármálaáætlun sem við ræðum hér. Ég rek augun í það í umsögn hv. þingmanns að við virðumst sammála um skort á gagnsæi og lélega samræmingu á verklagi milli ráðuneyta í þessari fjármálaáætlun og þá sérstaklega að dómsmálaráðuneytið hafi valið að nefna almennt engar kostnaðartölur utan áætlaðs kostnaðar við endurnýjun blindflugsbúnaðar, svo að ég vitni í umsögn hv. þingmanns. Ég er sammála honum um skort á samráði við þær stofnanir sem fjármálaáætlun nær yfir, en í umsögn hv. þingmanns kemur einnig fram að umsögn sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu setur á skýran hátt fram gagnrýni á að lítið samráð hafi verið haft við stofnanir, hvort heldur er við að ákveða fjármagnsþörf eða skilgreina markmið og aðgerðir. Mig langar að bera undir hv. þingmann áhyggjur sem ég hef haft við meðferð þessa máls. Það er að þessi skortur á gagnrýni, þessi lélega framsetning gagna og viðmiða verði þess valdandi að stofnanir undir hverju málefnasviði fyrir sig fari að taka sér stöðu hver gegn annarri. Í umsögn þeirrar sem hér stendur kemur fram að þessi skortur á sundurliðun í málefnasviðunum virðist verða þess valdandi að sumar stofnanir sjái sig knúnar til að taka afstöðu gegn öðrum stofnunum innan sama málefnasviðs til að tryggja stöðu sína í því óvissuástandi sem fjármálaáætlun skapar. Þannig kemur fram, í umsögn Lögreglustjórafélags Íslands, að efling Landhelgisgæslu megi ekki bitna á eflingu almennrar löggæslu í landinu á meðan sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu lýsir yfir áhyggjum af því að aukin fjárþörf vegna fjölgunar hælisleitenda muni bitna á fjárveitingum til sýslumannsembættisins. Tekur hv. þingmaður undir að það hljóti að teljast áhyggjuefni ef skortur á gagnsæi veldur jafn mikilli upplausn innan stjórnsýslunnar og raun ber vitni, þ.e. þeirri stöðutöku sem ég lýsi hér?