146. löggjafarþing — 70. fundur,  24. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[11:47]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Herra forseti. Við höldum áfram 2. umr. um fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar fyrir árin 2018–2022. Ég ætla að nýta ræðutíma minn núna til að fjalla almennt um fjármálaáætlunina og þá umsögn sem hún fær í nefndarálitum bæði meiri hluta og ýmissa minni hluta fjárlaganefndar sem og í hinum ýmsu umsögnum um málið frá hv. þingmönnum í hinum ýmsu fagnefndum þingsins. Ég byrja á þessu almenna en fjalla svo sérstaklega um umsögn mína og hv. þm. Rósu Bjarkar Brynjólfsdóttur en við eigum sæti í hv. utanríkismálanefnd og skiluðum umsögn þar.

Það verður ekki hjá því komist að ræða um fjármálaáætlunina almennt, hvernig hún var fram sett og vinnubrögðin í kringum hana. Það er slæmt hvernig framsetningin og umgjörðin var á fjármálaáætluninni eins og hún kom frá hæstv. fjármálaráðherra en mér finnst þó gott að það er talsverður samhljómur hjá þingmönnum, hvar í flokki sem þeir standa, um að tímaramminn sem Alþingi og þar með þingmenn höfðu til að vinna málið hafi verið allt of skammur. Gagnsæið í fjármálaáætluninni hafi verið lítið eða ekkert og erfitt að lesa út úr henni, það þurfi að endurskoða vinnubrögðin og styrkja þingið svo það geti sinnt aðhaldshlutverki sínu við framkvæmdarvaldið. Það hefur komið mjög svo bersýnilega í ljós að þingið er algerlega upp á framkvæmdarvaldið komið með að fá upplýsingar, sundurliðanir, og við verðum að taka þeim gögnum sem að okkur eru rétt ef við köllum eftir þeim. Þingið sjálft hefur afar litla burði til að fara sjálft í einhverja dýpri vinnu og við þingmenn fáum í rauninni bara aðstoð ef við æskjum hennar frá nefndarriturum við að semja nefndarálit.

Mér sýnist að við séum öll sammála um að þetta hafi verið bagalegt. Ég bind þess vegna miklar vonir við að þetta verði bætt og að á þessu verði tekið, að Alþingi muni gera alvöru úr að bæta þessi vinnubrögð, bæði til þess að tíminn verði meiri til að fjalla vel og ítarlega um fjármálaáætlunina og svo til þess að afurðin sem út úr því kemur verði betri. En auðvitað helst það líka í hendur að ef framkvæmdarvaldið og hæstv. ráðherra skila betri afurð af sér næst þá verða tölurnar betur settar fram, þá verður t.d. búið að greina á milli þess sem fer í rekstur og þess sem fer í einskiptisaðgerðir, til að mynda byggingarkostnað. Það verði greint vel í sundur þannig að hv. þingmenn þurfi ekki að eyða tíma sínum í að kalla sérstaklega fram upplýsingar um það.

Ég varð hins vegar mjög hugsi þegar ég sá í nefndaráliti meiri hluta fjárlaganefndar að hann telur að fjármálaáætlun beri þess merki að nýr meiri hluti hafi ekki haft nægan tíma til að undirbúa og útfæra fjármálaáætlun næsta árs og talar um að það falli illa að starfsramma þingsins að ný ríkisstjórn taki við í janúar. Það er örugglega sannleikskorn í þessu. Það er vissulega óvenjulegt í íslenskum stjórnmálum að ný ríkisstjórn taki við á þessum tíma. En ég spyr þó samt: Getur ekki verið að nefndarálit frá meiri hluta fjárlaganefndar, þar sem ýmislegt er gagnrýnt en þó eru ekki lagðar til neinar breytingar á áætluninni, snúist ekki bara um að það hafi ekki verið nægur tími til að undirbúa og útfæra fjármálaáætlun næstu ára heldur að það hafi hreinlega ekki farið fram sú umræða sem nauðsynleg er innan þeirra þingflokka sem mynda meiri hlutann á Alþingi og eiga sæti í ríkisstjórn? Það hafi skort upp á að þar væri tekið hið djúpa pólitíska samtal sem í raun þarf til að ná samstöðu um að leggja fram svona veigamikið plagg? Ég get ekki annað en hugsað þetta þegar ég les þetta nefndarálit.

Eins og ég sagði áðan var fastanefndum þingsins ætlaður allt of skammur tími til að veita álit sitt á þeim þáttum fjármálaáætlunarinnar sem heyra undir starfssvið hverrar fastanefndar. Ég verð þó að segja að við félagar mínir í hv. utanríkismálanefnd höfðum þar þó léttara verk en aðrir hv. þingmenn sem sitja í öðrum fastanefndum þingsins þar sem það heyra jú færri málefnasvið undir utanríkismálanefnd. Verkefnið var því viðráðanlegra hvað þetta varðar fyrir okkur, þó svo að við höfum engu að síður þurft að kalla eftir upplýsingum frá utanríkisráðuneytinu. Þá kom í ljós að það var til miklu frekara niðurbrot á tölum í ráðuneytinu en hafði birst í fjármálaáætluninni. Mér finnst það eitt og sér vera mjög stórt umhugsunarefni. Ef það eru til fyllri upplýsingar, þótt þetta sé áætlun, af hverju er þá ekki þingmönnum bara veittur aðgangur að þeim strax? Af hverju þurfum við að kalla eftir þeim sérstaklega?

Þegar litið er á fjármálaáætlunina heilt yfir er ég ósammála því pólitíska markmiði sem þar kemur fram en það sem veldur mér hvað mestum kvíða er að hér kemur enn skýrar fram það sem við ræddum raunar mörg þegar við ræddum um fjármálastefnu fyrr í vetur. Það eru áformin sem eru uppi um að á gildistíma fjármálaáætlunarinnar fari þróun samneyslu sem hlutfalls af vergri landsframleiðslu lækkandi. Þetta finnst mér vera mjög mikið áhyggjuatriði. Ég tel þetta sérlega slæm tíðindi, ekki síst fyrir lágtekjufólk sem hefur sérstaklega mikinn hag af því að samneyslan sé sem mest, að hún sé sterk, að innviðirnir, til að mynda velferðarkerfið og menntakerfið, séu fjármagnaðir í gegnum sameiginlega sjóði.

Það hefur mikið verið talað um að mikilvægt sé að greiða niður skuldir. Á það hefur höfuðáhersla verið lögð hjá hæstv. ríkisstjórn. Ég er alveg sammála því að það er mikilvægt að greiða niður skuldir. En það má ekki vanrækja viðhald og uppbyggingu innviða á sama tíma heldur verður þetta tvennt að haldast í hendur. Ef innviðirnir eru vanræktir er í raun verið að færa þann kostnað yfir á þær kynslóðir sem á eftir okkur koma. Mér finnst þess sjá stað í fjármálaáætlun að það er nákvæmlega það sem er að fara að gerast. Þess vegna tek ég undir með þeim sem hafa nefnt þetta atriði, að það sé verið að velta kostnaði yfir á framtíðina og það á kynslóðir sem er ljóst að munu þurfa að takast á við mjög erfiðar áskoranir, m.a. vegna breyttrar aldurssamsetningar þjóðarinnar en ekki síst vegna loftslagsbreytinga. Það er í mínum huga alveg ljóst að það verða miklar samfélagsbreytingar á næstu árum. Það tengist svo aftur í mínum huga samdrættinum í samneyslunni. Þar hef ég einna mestar áhyggjur af því að ekki sé lagt nægjanlega mikið til menntamálanna. Sú aðhaldskrafa sem menntakerfinu er gert að uppfylla tel ég þess vegna alveg kolranga pólitíska forgangsröðun. Það sem samfélag framtíðarinnar þarf á að halda, samfélag sem þarf að takast á við loftslagsbreytingar, samfélag sem þarf að koma með alls konar nýjar lausnir á málum, er vel menntaðir einstaklingar. Það er eitt af því sem er svo frábært við menntun, hún getur aukið getu fólks til að takast á við nýjar og óvæntar aðstæður og til að finna upp nýjar leiðir, hreinlega nýja tækni til þess að takast á við málin. Þess vegna finnst mér þessi framtíðarsýn sem birtist hjá hæstv. ríkisstjórn þar sem menntunin er ekki í forgangi gríðarlega slæm. Ég hef áhyggjur af henni. Ég tel hana hreinlega hættulega.

Herra forseti. Ég er búin að nýta allmikið af ræðutíma mínum í að tala almennt um fjármálaáætlun og ætla því núna að vinda mér sérstaklega í það sem heyrir undir málefnasvið utanríkismála. Það er í þeirri nefnd sem ég á sæti og fékk því það verkefni að fjalla um það sérstaklega. Ég vil þar byrja á að nefna Brexit, m.a. vegna þess að við áttum fyrir nokkrum dögum samtal í þessum sal við hæstv. utanríkisráðherra sem hefur lagt á það mikla áherslu, eðlilega og sem betur fer, að Ísland þurfi að undirbúa sig vel og ná góðum samningum við Breta þegar kemur að útgöngu þeirra úr Evrópusambandinu. Ég hef svolitlar áhyggjur af því að í áætluninni séu ekki sérstaklega eyrnamerktir peningar í þetta málefni. Það kom fram á fundi í utanríkismálanefnd að fjölga eigi um eitt stöðugildi í utanríkisþjónustunni í London vegna Brexit en það kemur engin sérstök fjárveiting til þess, heldur á að finna fjármuni og hliðra til innan rammans. Það sem ég hef áhyggjur af er að þá vitum við ekki nákvæmlega hvaðan á að taka peningana. Það hlýtur eitthvað annað að sitja á hakanum. Við höfum líka átt hér í þessum þingsal talsverða umræðu um að það þurfi að efla hagsmunagæslu Íslands og aðkomu á fyrri stigum þegar verið er að móta Evrópulöggjöf. Þar vantar líka starfsmenn og fjármagn. Eiga þessir tveir póstar kannski að bítast um peningana? Þetta tengist beint inn í orðaskipti hv. þm. Andrésar Inga Jónssonar og Þórhildar Sunnu Ævarsdóttur hér áðan um að stofnanir innan málefnasviðanna muni þurfa að fara að bítast um peninga. Þetta hefði ég vilja sjá skýrar.

Ég verð líka að nefna hernaðarmálin sem ganga nú yfirleitt undir heitinu öryggis- og varnarmál. Það er mat okkar í 2. minni hluta utanríkismálanefndar að þar séu engar útfærslur og engar heildstæðar skýringar á því hvernig eigi að verja fjármagninu. Þrátt fyrir að framlög Íslands til NATO hafi verið aukin á síðustu árum í ríkisstjórnartíð Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks og boðað sé að svo verði áfram er hvergi almennilega hægt að sjá nákvæmlega hversu miklum fjármunum Ísland ætlar sjálft að veita í þennan málaflokk né heldur hversu mikið af peningum eigi að renna til stofnana á borð við Landhelgisgæsluna. Þó kemur skýrt fram að það eigi að fjölga gistirýmum innan öryggissvæðisins úr 200 eins og þau voru árið 2016 yfir í 300 árið 2022. En ekkert kemur hins vegar fram um áætlaðan kostnað við þetta. Mér finnst það mjög skrýtið. Þetta er eitt af þeim atriðum sem ég hefði haldið að væri frekar auðvelt að setja tölu á. Ég tel sérlega bagalegt að þarna sé ekki nánara niðurbrot á kostnaði því það er þekkt alls staðar í heiminum að öryggis- og varnarmál eru einhver mesta hít í opinberum rekstri sem til er hvarvetna á byggðu bóli þar sem svimandi fjárhæðir renna úr vösum almennings til framleiðenda tækjabúnaðar eða verktaka sem maka krókinn í skjóli þess að það er alltaf sagt að vegna eðlis málaflokksins verði að ríkja leynd um innihald samninga. Þarna eru útboð takmörkuð og annað eftir því. Það eru því gríðarlega miklir efnahagslegir hagsmunir fólgnir í því hjá mörgum í heiminum að hernaðarútgjöldum sé haldið háum. Ég hef áhyggjur af því að hin herlausa þjóð Íslands, sem þó er aðili að NATO, ætli að vera með í þessari nýtingu, setja fjármagn í þetta, en ekki að fókusera á önnur og uppbyggilegri málefni sem ég tel að væru miklu frekar til þess fallin að auka öryggi þjóðar.

Þá á ég alveg eftir að fjalla um þróunarmálin sem eru einmitt það sem ég tel að við eigum að leggja áherslu á. En ég sé að tíma míns vegna verð ég að biðja um að fá að verða aftur sett á mælendaskrá til að fjalla um þau sérstaklega, og sérstaklega þá hneisu að Ísland (Forseti hringir.) sem er meðal ríkustu landa heims ætlar ekki að hækka framlög sín til þróunarmála nema um 0,01% á gildistíma áætlunarinnar. Síðar í dag eða síðar í þessari umræðu mun ég fjalla nánar um það.