146. löggjafarþing — 70. fundur,  24. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[12:10]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Halldóru Mogensen fyrir óskaplega góða spurningu sem snýst að ég tel í grunninn um jöfnuð innan samfélags okkar, en líka jöfnuð á heimsvísu þar sem við erum í raun að fást við sama vandann, þ.e. að eignir, auðurinn er að færast á sífellt færri hendur en hinn mikli fjöldi býr við skort. Það er í rauninni sama myndin hér á Íslandi og annars staðar í heiminum þótt við séum hér á miklu minni skala þegar kemur að Íslandi og íslensku samfélagi þegar við horfum á heiminn allan. Auðvitað ættum við sem lítið samfélag þar sem allar boðleiðir eru mjög stuttar, auðveldlega að geta tekið á því að hanna kerfið og virkja mannauð allra. Þá er alveg sama hvort við tölum um fólk sem flyst hingað frá útlöndum, fólk sem hefur skerta starfsorku einhverra hluta vegna, fatlað fólk: Það er alveg gerlegt í samfélagi okkar að ná utan um það. En það eru í raun sömu prinsipp sem gilda ef við skoðum þetta á heimsvísu.

Það hefur meira að segja verið skrifað um það á fræðilegum vettvangi að samfélög sem leggja áherslu á jöfnuð meðal borgara sinna eru líkleg til að veita hvað mesta peninga í þróunarsamvinnu. Þau skilja að áherslan á jöfnuð er alheimsmál bæði hér heima fyrir og á heimsvísu. Mér finnst mjög mikilvægt að við setjum það allt í samhengi og það verður svo sérstaklega aðkallandi núna. Hv. þingmaður hóf fyrirspurn sína á að (Forseti hringir.) tengja við loftslagsbreytingar: Þær gera þetta aftur enn þá mikilvægara.