146. löggjafarþing — 70. fundur,  24. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[12:13]
Horfa

Halldóra Mogensen (P) (andsvar):

Forseti. Ég þakka fyrir þessi svör. Nú erum við á Íslandi í svo áhugaverðri stöðu því að við erum svo lítið land og við erum rík, rík af auðlindum. Við höfum tækifæri til að hugsa samfélagið upp á nýtt, kerfin okkar upp á nýtt, gera tilraunir, vera með tilraunastarfsemi og prófa nýja hluti. Þannig gætum við í raun og veru verið leiðarljós. Við gætum prófað nýja hluti og ef þeir virka vel gæti verið að aðrir annars staðar í heiminum gætu tekið upp þær hugmyndir, þær gætu nýst öllum. Mér finnst einmitt þessi fjármálaáætlun vera svo hugmyndasnauð gagnvart því hvernig hún nálgast þessi vandamál, eins og fram kemur í fjármálaáætlun, með leyfi forseta:

„Á fyrstu mánuðum ársins hafa komið í ljós veikleikar í fjármálum ríkisins sem fela í sér útgjaldaaukningu verði ekki brugðist við því. Þannig hefur fjölgun öryrkja verið umfram áætlanir, hælisleitendum hefur fjölgað og útgjöld sjúkratrygginga eru einnig umtalsvert hærri en reiknað hafði verið með, einkum vegna lyfjakostnaðar. Þessir þættir, sem nema samtals um 8,3 milljörðum kr., hafa verið teknir inn í fjármálaáætlun nú og mynda varanlega útgjaldaaukningu.“

Að verið sé að tala um að eitthvað sé varanlegt vandamál finnst mér lýsa ofboðslegum skorti á hugmyndaflugi og getu til að prófa nýja hluti. Mér finnst það mjög alvarlegt ef við ætlum að hjakka áfram í sama farinu og ætlast til að einhverjar breytingar verði sem skipta einhverju máli fyrir fólkið í landinu.

Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hún sjái tækifæri á Íslandi til að gera eitthvað nýtt, prófa nýja hluti og vera óhrædd við það. Ef það gengur ekki upp þá gengur það ekki upp, þá prófum við eitthvað annað.