146. löggjafarþing — 70. fundur,  24. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[12:17]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Ég hlakka til að hlýða á seinni ræðu hv. þingmanns þar sem hún ætlar að fara yfir þróunarsamvinnuna. Það var einmitt hún sem ég vildi ræða.

Sameinuðu þjóðirnar hafa sammælst um að framlög til þróunarsamvinnu verði 0,7% af vergum þjóðartekjum. Fyrir árið 2017 erum við Íslendingar, ein af ríkustu þjóðum heims, að leggja til 0,25% af vergum þjóðartekjum. Þessi fjármálaáætlun gerir ráð fyrir að framlög til þróunarsamvinnu verði 0,26% af vergum þjóðartekjum út fimm ára áætlunartíma. Þarna er enginn metnaður og ekki farið í rétta átt.

En þegar Vinstri grænir og Samfylkingin voru saman í ríkisstjórn var samþykkt áætlun sem gerði ráð fyrir að við næðum marki Sameinuðu þjóðanna árið 2019. Það rímar vel við það sem hv. þingmaður benti á áðan, að þau ríki sem leggja áherslu á jöfnuð átta sig á að það er ekki bara heima heldur þarf hann að vera víðar og hafa skilning á þessum málum.

Samfylkingin hefur gert breytingartillögu við þessa fjármálaáætlun sem stefnir aðeins í rétta átt, þó að auðvitað hefði þurft að gera betur, en þar er gert ráð fyrir að árið 2018 verði 0,29% af vergum þjóðartekjum varið til þróunarsamvinnu og hún fari stighækkandi og endi í 0,33% árið 2022. Það þýðir að árið 2018 bætast við 782 millj. kr. og 2022 er viðbótin orðin 2 milljarðar.

Ég vil spyrja hv. þingmann hvað henni finnist um þessa tillögu og hvort hún geti hugsað sér að styðja hana.