146. löggjafarþing — 70. fundur,  24. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[12:22]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Nú verð ég að biðja hv. þingmann að taka álit 3. minni hluta fjárlaganefndar og lesa það. Þar eru bæði tillögur um aukin útgjöld til að mæta brýnum málum sem ríkisstjórnin hunsar en almenningur hefur þó kallað eftir. Þar er líka tekið fram hvernig hægt er að afla tekna.

Hv. þingmaður talar um metnaðarleysi ríkisstjórnarinnar í áætlanagerð og framtíðarsýn til næstu fimm ára fyrir íslenskt samfélag, og ég vil taka undir það. Ríkisstjórnin gerir það sem hægri stjórnir gera, lækkar skatta og stingur upp á að selja verðmætar eignir eins og opnað er á í nefndaráliti meiri hlutans. Auðvitað er það tekið alvarlega þegar meiri hluti fjárlaganefndar, með oddvitum kjördæma og þingflokksformönnum stjórnarflokka, leggur slíkt til og opnar á að selja okkar einu gátt út og inn úr landinu. En þarna er þetta sett á dagskrá.

Í umræðunni í gær talaði þingflokksformaður Bjartrar framtíðar um að þetta væri svona til umræðu. En umræðan er ekki tekin um þróun heilbrigðiskerfisins og áhrif einkavæðingar þar og hvort halda eigi áfram á þeirri braut eða hvort við þurfum að snúa til baka því að þetta skapar vandamál fyrir samfélagið. Það er til dæmis ekki talað um þróunina í framhaldsskólakerfinu, hvort við ættum að stíga til baka með einkavæðingaráform þar og hvað það muni þýða fyrir menntunarstig og aðgengi að námi í landinu. Ekki er opnað á þessa umræðu í þessum stóru málum.

Ég vil spyrja hv. þingmann hvort hv. utanríkismálanefnd sé að taka til skoðunar áætlanir vegna þróunarsamvinnu og áherslur Íslands þar og sé með plön og áætlanagerð í gangi.