146. löggjafarþing — 70. fundur,  24. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[12:24]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég verð að taka undir það að umræðan er dálítið skrýtin, finnst mér, þegar kemur að þeim verkefnum sem allir virtust sammála um fyrir kosningar að fara þyrfti í, þ.e. að styrkja innviðina, og svo þegar kemur að því að gera það. Eða gera það ekki, eins og þessi fjármálaáætlun gerir ráð fyrir og eins og nefndarálit frá meiri hluta allra nefnda, sýnist mér, gera einnig ráð fyrir.

Umræðan krafsar ofsalega mikið í yfirborðið. Eitthvað er nefnt, hugmyndum er kastað fram: Þetta væri hægt að gera án þess að maður viti alveg hvort þetta sé bara eitthvað til að kasta inn í umræðuna. Er þetta til þess að við séum ekki að tala um aðalatriðið sem er að fjármagn skortir til að reka samfélagið með sanngjörnum og sjálfbærum hætti til langrar framtíðar? Þessu hef ég áhyggjur af.

Hvað varðar þróunarmálin og utanríkismálanefnd þá veit ég til þess að utanríkismálanefnd hefur fengið kynningu á þróunarsamvinnunefnd sem í eiga sæti þingmenn frá öllum flokkum á Alþingi. Ég komst reyndar því miður ekki á þann tiltekna fund þar sem þessi mál hafa verið rædd. Það hefur alla vega komið mjög skýrt fram, hjá okkur í minni hlutanum í hv. utanríkismálanefnd, (Forseti hringir.) að við viljum taka þróunarsamvinnuna og framlögin til hennar föstum tökum. Í þá átt hafa aðrir þingmenn einnig talað en þess sér ekki stað í þessum tillögum hér.