146. löggjafarþing — 71. fundur,  24. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[15:08]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg):

Frú forseti. Við ræðum hér plagg sem á að vera eitt mikilvægasta plagg hverrar ríkisstjórnar ásamt fjármálastefnunni. Það er ekki lítil ábyrgð sem felst í þessu plaggi en í því er ekki aðeins um að ræða tölur á blaði heldur er um að ræða grundvallarplagg í pólitískri stefnumótun hverrar ríkisstjórnar fyrir næstu fimm árin, grundvallarplagg í því að marka hvers konar pólitík hér á að ríkja næstu fimm árin varðandi öflun fjármuna í ríkissjóð og dreifingu þeirra. Fjármálaáætlun er því pólitískt stefnuplagg ríkisstjórnar sem situr hér með eins manns meiri hluta og minni hluta atkvæða á bak við sig.

Það er ekki beysin pólitík sem hér birtist, síður en svo. Hér er ekki að finna pólitík sem stuðlar að raunverulegum umbótum í innviðum þjóðarinnar og samfélags hennar sem ríkisstjórnarflokkarnir lofuðu og boðuðu fyrir kosningar. Þetta er pólitík stöðnunar og framkvæmdaleysis, pólitík samdráttar og athafnaleysis. Grundvöllurinn að fjármálaáætlun ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokksins, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar er veikur og mun hvorki stuðla að efnahagslegum stöðugleika né félagslegum stöðugleika, hvað þá jöfnuði.

Fjármálaáætlun til fimm ára er nú lögð fram öðru sinni. Í lögum um opinber fjármál og fjármálaáætlun er þeim ætlað, eins og segir í 1. gr. þeirra, „að stuðla að góðri hagstjórn og styrkri og ábyrgri stjórn opinberra fjármála“. Þessi fyrirætlan er að sjálfsögðu allra góðra gjalda verð og vissulega þarft að endurbæta umgjörð opinberra fjármála, enda voru ólík stjórnmálaöfl á Alþingi mjög svo samstiga um það á sínum tíma. En þegar hyllti undir lokaafgreiðslu málsins kom hins vegar í ljós að ætlun þáverandi ríkisstjórnarflokka, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, var að í lögunum yrðu afar stífar fjármálareglur sem þar er nú að finna og eru afkomuregla, skuldaregla og skuldalækkunarregla. Þá skildi leiðir þegar fulltrúar Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs lögðust einir gegn stjórnarliðum og málinu í heild sinni og andmæltu harðlega þessum áformum á þeim forsendum að verið væri að þrengja reglur og lögfesta þær til að hefta stjórnvöld í að bregðast með afgerandi hætti við samdrætti og erfiðleikum í hagkerfinu. Þess í stað er ætlunin að dregið verði saman í velferðarkerfinu og starfsemi hins opinbera við slíkar aðstæður.

Við vitum öll að slíkur samdráttur kemur ætíð verst við þá einstaklinga sem eru lakast settir hvað efnahag varðar. Þessar fjármálareglur sem ég minntist á eru í raun og veru til þess fallnar að lögfesta niðurskurðarstefnu og aðhaldssemi sem hægri sinnaðar ríkisstjórnir hafa hvarvetna beitt í opinberum fjármálum síðustu áratugi þegar illa hefur árað í efnahagsmálum með þeim afleiðingum að víða hefur verið þrengt að velferð og mikilvægri grunnþjónustu hins opinbera með langvinnu fjársvelti. Þannig hafa verið sköpuð sóknarfæri fyrir auðmagn og einkavæðingu í þágu fjármagnseigenda með röksemdum um að þeim beri að láta til sín taka þar sem hið opinbera valdi ekki verkefnum sínum.

Í fjármálaáætlun núverandi ríkisstjórnar sem boðaði í upphafi síns valdatíma stóraukið samtal og samráð í orði er valið að breikka ágreininginn um þessar fjármálareglur og komu fram þegar ríkisstjórnin lagði fram fjármálastefnu sína sem er undanfari fjármálaáætlunarinnar sem við ræðum hér. Þar bætti núverandi ríkisstjórn við nýrri og mjög takmarkandi girðingu, heildarútgjaldaþaki fyrir hið opinbera sem hlutfalli af vergri landsframleiðslu. Það þak liggur fast við núverandi umsvif hins opinbera og gerir að verkum að nánast ekkert er hægt að spýta í til uppbyggingar og nánast ekkert svigrúm er til að milda áhrif neikvæðra hagsveiflna þegar þær koma.

Þetta hafa þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs gagnrýnt, enda er fjármálastefnan hrein hægri stefna í anda niðurskurðar og aðhaldsstefnu hægri afla sem finna má víðast hvar annars staðar en hér. Það voru ekki einungis þingmenn Vinstri grænna sem gagnrýndu þá stefnu og þær áætlanir. Óháð fjármálaráð orðaði það sem svo að stjórnvöld gætu hæglega lent í spennitreyju fjármálastefnunnar ef atburðarásin reyndist önnur en spár gerðu ráð fyrir. Fjármálaáætlun nú byggist á þessari fjármálastefnu. Ljóst má vera af umsögnum um áætlunina að margir deila áhyggjum fjármálaráðs af áðurnefndri spennitreyju.

Sú sem hér stendur situr bæði í efnahags- og viðskiptanefnd og í utanríkismálanefnd og því vil ég nýta ræðutíma minn til að draga fram þær áherslur sem fram koma í umfjöllun þeirra nefnda við fjármálaáætlunina. Fyrir það fyrsta er í fjármálaáætlun alger óvissa um efnahagslegar forsendur. Það er ekki eingöngu skoðun mín heldur er það kýrskýrt af umsögn fjármálaráðs að í fjármálaáætlun er að finna mikla óvissu um ýmsar þjóðhagslegar og efnahagslegar forsendur. Þannig bendir ráðið á að ákveðinnar einsleitni gæti í líkönum og spágerð á Íslandi þegar unnið er að fjármálaáætluninni. Orðrétt segir í áliti fjármálaráðs, með leyfi forseta:

„Allir helstu aðilar hér á landi notast við líkan Seðlabankans við spágerð sína. Þetta er áhyggjuefni. Einsleit líkön leiða til einsleitra spáa og umræða um efnahagsmál verður einsleit. Slíkt eykur hættu á því að allir geri sömu mistök.“

Í umsögn ráðsins má finna ýmsar fleiri athugasemdir við þá aðferðafræði sem beitt er við gerð fjármálaáætlunarinnar. Til að mynda er bent á að þær hagspár sem stuðst hafi verið við á undanförnum árum hafi ítrekað ekki staðið og þjóðhagsspáin hafi þannig tekið umtalsverðum breytingum yfir tíma. Enga greiningu sé hins vegar að finna í fjármálaáætluninni á þessum kerfisbundnu spáskekkjum á fjármál hins opinbera. Slík greining myndi að mati fjármálaráðs auka gagnsæi sem á að heita eitt af grunngildum fjármálastefnu og fjármálaáætlunarinnar.

Þá dregur fjármálaráð í efa ýmsar þær forsendur sem fjármálaráðherra virðist gefa sér í fjármálaáætlun. Til að mynda geri þjóðhagsspá ráð fyrir að sparnaðarhneigð landsmanna hafi aukist varanlega án þess að það sé rökstutt með neinni greiningu. Einu rökin fyrir fullyrðingu um slíka framvindu er lýsing á samdrætti í einkaneyslu frá árinu 2008. Í umsögn fjármálaráðs segir að einkaneysla sem hlutfall af vergri landsframleiðslu sé yfirleitt um þriðjungur í vestrænum ríkjum og erfitt að sjá hví Íslendingar ættu að skera sig úr hvað það varðar til lengri tíma litið.

Annað slíkt dæmi um forsendur sem eru óvissar er að áætlunin byggist á hagspá Hagstofu Íslands sem gerir ráð fyrir mjúkri lendingu eftir þá þenslu sem nú einkennir íslenska hagkerfið og þar með muni þetta langa hagvaxtarskeið ganga vandræðalaust yfir. Í umsögn fjármálaráðs segir hins vegar að sagan kenni okkur að hörð lending sé „oftar en ekki raunin eftir þensluskeið á Íslandi og því æskilegt að hafa vaðið fyrir neðan sig og greina áhættuna. Að minnsta kosti væri eðlilegt að taka mið af spám og greiningum annarra greiningaraðila eins og kveðið er á um í lögum.“

Þegar kemur að þeim fáu og innihaldsrýru tekjuöflunarleiðum sem boðaðar eru í fjármálaáætlun er ein helsta skattbreytingin sem boðuð er þar sú að ferðaþjónusta verði færð úr neðra þrepi í efra þrep virðisaukaskattskerfisins en efra þrepið verði svo í kjölfarið lækkað. Um þetta hafa margar ræður verið haldnar og mikil gagnrýni verið uppi, bæði inni á þingi og í samfélaginu á þessa fyrirætlan. En ef við bara einblínum á þær tekjur sem þessi aðgerð á að færa ríkissjóði, að færa ferðaþjónustuna í efra þrep virðisaukaskattskerfisins, á hún að nema 17,5 milljörðum kr. á ársgrundvelli frá og með árinu 2019 en á móti kemur lækkun á efra þrep virðisaukaskattskerfisins sem er talin leiða til 13,5 milljarða kr. lækkunar á tekjum ríkissjóðs á ári. Nettó tekjuáhrifin af þessari aðgerð eiga því að vera 4 milljarðar kr.

Þessi breyting var viðamest í umfjöllun efnahags- og viðskiptanefndar um málið. Sú aðgerð virðist hafa komið ferðaþjónustuaðilum í opna skjöldu eins og við höfum öll fylgst með enda þvert á orð ýmissa talsmanna stjórnarflokkanna fyrir kosningar. Við þinglega meðferð málsins kom fram að ekkert samráð hafi verið haft við þessa aðila um aðgerðina þrátt fyrir að ferðaþjónustan og stjórnvöld reki sameiginlega svokallaða Stjórnstöð ferðamála þar sem ætlunin er að sameiginleg stefna verði mótuð.

Rökin fyrir aðgerðinni eru þau að ferðaþjónustan eigi að búa við sambærilegt skattumhverfi og aðrar atvinnugreinar. Á sama tíma má benda á að íslensk ferðaþjónusta er í samkeppni við ferðaþjónustu í öðrum Evrópulöndum og verði þessi hækkun að veruleika mun íslensk ferðaþjónusta bera mjög háan virðisaukaskatt miðað við önnur Evrópulönd.

Við þinglega meðferð málsins komu fram ítrekaðar áhyggjur af því að hækkun á virðisaukaskatti gæti haft áhrif á dreifingu ferðamanna um landið sem hefur þó verið yfirlýst stefnumið stjórnvalda fram að þessu, en dreifing ferðamanna um landið er nátengd dvalarlengd þeirra þar sem styttri dvöl yrði óhjákvæmilega nær höfuðborgarsvæðinu og miðstöð millilandaflugs.

Mat fjármálaráðs á hækkun virðisaukaskatts á ferðaþjónustuna er athyglisvert en ráðið telur að skattaleg meðferð ferðaþjónustu eigi að vera sambærileg við aðrar atvinnugreinar. Hins vegar setur ráðið spurningarmerki við tímasetningu aðgerðarinnar sem og þá tilhögun að lækka efra virðisaukaskattsþrepið í kjölfarið en sú aðgerð flytji skattheimtuna af innlendri eftirspurn.

Að öðru varðandi tekjuöflun fyrir ríkissjóð okkar allra þá sakna ég þess að ekki sé hér að finna miklu metnaðarfyllri og ítarlegri áætlun um græna skatta. Það er vissulega boðuð tvöföldun kolefnisgjalds sem önnur skattaleg aðgerð með virðisaukaskattshækkuninni á ferðaþjónustuna. Sú tvöföldun er mjög skynsamlega ráðstöfun enda þarf gjaldið að vera hærra en nú til að skila tilætluðum árangri til að stuðla að samdrætti í losun kolefnis. Það vekur hins vegar áhyggjur hversu stutt á veg öll stefnumótun um græna skatta er komin og ekki virðist neitt samráð hafa verið haft heldur um hækkun kolefnisgjalda eða aðra hugsanlega græna skatta. Fjármálaráðherra hefur talað fyrir bílastæðagjöldum sem hluta af þessum grænu sköttum en ekki hefur verið hugað að því hvernig slík gjöld samræmast annarri stefnumótun. Engin greining liggur fyrir um fjölda bílastæða á svæðum en þar þarf að liggja fyrir einhver ítarlegri greining á þolmörkum svæða og grundvelli fyrir ítölu þeirra.

Ég er þess þenkjandi, frú forseti, að við verðum að gera mun betur þegar kemur að stefnu og sýn varðandi græna skattlagningu. Ég minni á að hæstv. umhverfisráðherra hefur talað hér í þinginu um græna skatta og að fjölga þurfi grænum sköttum innan skattkerfisins. Þar er ég hjartanlega sammála hæstv. umhverfisráðherra en ég efast um að allir ráðherrar ríkisstjórnarinnar séu sammála þeim orðum. Ekki kemur það fram í fjármálaáætluninni. Ég bendi líka á orð og blaðagrein sem hæstv. dómsmálaráðherra skrifaði í Morgunblaðið 12. febrúar sl. þar sem hún dró í efa græna skatta og græna hvata og styrki í efnahags- og hagkerfinu, dró það verulega í efa og varaði beinlínis við þeim. Ég spyr: Er þá engin samstaða innan ríkisstjórnarinnar um skattlagningu grænna skatta? Ísland verður að hysja verulega upp um sig buxurnar og gera mun betur í mótvægisaðgerðum þegar kemur að loftslagsbreytingum. Hluti af því eru grænir skattar og sterk framtíðarsýn þar að lútandi.

Annað sem ég vil koma hér að víkur að umsögn þar sem við í 2. minni hluta utanríkismálanefndar bentum á og gagnrýndum harðlega, bæði hér í ræðum á Alþingi og í umsögn okkar um fjármálaáætlun, en það eru framlög til þróunarmála. Þegar kemur að þróunarmálum og framlögum til þeirra er horfið frá vilyrðum um áætluð framlög til þróunarsamvinnu sem samþykkt voru á Alþingi af öllum þáverandi þingmönnum, nema Vigdísi Hauksdóttur, árið 2013. Í fjármálaáætlun fyrir næstu fimm ár kemur fram að íslensk stjórnvöld styðji markmið Sameinuðu þjóðanna um að iðnríki skuli veita sem nemur 0,7% af vergum þjóðartekjum sínum til þróunarsamvinnu. Við í minni hluta utanríkismálanefndar tökum að sjálfsögðu undir þau markmið en aftur á móti hörmum hvernig útgjaldaáætlun í þennan mikilvæga málaflokk er háttað í fjármálaáætlun fyrir næstu fimm árin.

Hér kemur fram að framlög til þróunarsamvinnu voru 0,25% af vergum þjóðartekjum árið 2016 og stefnt að því að þau verði áfram 0,25% árið 2017, og hækki um 0,01% út tímabilið. Það er aldeilis ekki í samræmi við siðferðislegar skyldur Íslands sem einnar efnuðustu þjóðar heimsins og alls ekki í samræmi við þær alþjóðlegu skyldur sem við höfum undirgengist og stefnt að um árabil en aldrei uppfyllt. Nú þegar efnahagsástandið er með þeim hætti að það er sannarlega tækifæri til að bæta við í þessum útgjöldum, hverjar eru þá áherslur núverandi ríkisstjórnar? Það er að halda áfram þessum samdrætti sem ákveðinn var með þingsályktunartillögu árið 2015.

Þörfin fyrir alþjóðlega mannúðar- og þróunaraðstoð hefur sjaldan verið meiri í heiminum en samkvæmt upplýsingum Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna eru nú yfir 65 milljónir manna á flótta undan stríði, ofsóknum, náttúruhamförum og fátækt. Flóttamannastofnunin sendi út neyðarkall til ríkja heims á þessu ári um að auka fjárframlög til mannúðarmála og þróunarsamvinnu. 2. minni hluti utanríkismálanefndar fordæmir þetta metnaðarleysi stjórnvalda og leggur til að umsvifalaust verði gerð áætlun um það hvernig auka megi framlög til þróunarsamvinnu í skrefum til þess að markmiðum Sameinuðu þjóðanna verði náð.

Hefði þingsályktunartillögunni frá árinu 2013 verið fylgt hefðu framlög Íslands til þróunarsamvinnu numið 0,42% af vergum þjóðartekjum árið 2016, verið 0,5% árið 2017 og verið komin upp í viðmið Sameinuðu þjóðanna um 0,7% árið 2019. Þessi áætlun var aftengd vorið 2015 og framlögin dregin saman. Þessi dapurlegi samdráttur á sér áfram stað í fjármálaáætlun ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar. Ýmsar hættur steðja að í heiminum sem geta leitt til þess að öryggi ríkja er ógnað. Því miður virðast viðbrögð þau sem lesa má út úr fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar við öryggisógnum eiga að byggjast á auknum, en þó á sama tíma afar óljósum, hernaðarlegum áherslum á sama tíma og íslenska ríkið heykist á því að standa við sín eigin markmið um framlög til þróunarsamvinnu. Um leið guggnar ríkisstjórnin á því að leggja meira af mörkum til að stemma stigu við misskiptingu og ójöfnuði og því ástandi sem rekur fjölda fólks frá heimkynnum sínum og eykur á ójafnvægi og óöryggi í heiminum.

Virðulegi forseti. Þetta er hneyksli. Það er mikil skömm ríkisstjórnarflokkanna að styðja þessi áform. Ég velti fyrir mér og hef sagt áður í ræðustól þingsins og spurt þeirra spurninga hvert flokkarnir Sjálfstæðisflokkur, Viðreisn og Björt framtíð eru komnir í sinni tilveru með því að styðja þessa áætlun. Það væri líklega til að æra óstöðugan að telja upp alla þá óvissuþætti sem fram hafa komið um fjármálaáætlun við þinglega meðferð hennar í nefndum þingsins. En rauður þráður í umsögn fjármálaráðsins er að frekari gögn og greiningar vanti. Bent er á þegar kemur að umsögn um eignir og skuldir að sundurliðuð gögn liggja ekki fyrir svo ekki sé hægt að fullyrða að stefna um þróun skulda skaði ekki sjálfbærni eða setji hana úr jafnvægi, sem eiga þó að vera grunngildin við fjármálastefnu og fjármálaáætlun.

Það er kristalskýrt að styrkja þarf tekjustofna ríkisins ef treysta á félagslegan stöðugleika í íslensku samfélagi. Ekki veikja þá. Það er nóg af aðkallandi verkefnum í samfélaginu en svo að við getum leyft okkur að afsala okkur tekjum sisvona. Til hverra erum við að afsala okkur tekjunum? Jú, til þeirra sem best búa í íslensku samfélagi. Með styrkjum til útgerðarfyrirtækja og annarra fyrirtækja og til þeirra sem eiga langmestu fjármuni í íslensku samfélagi. Það svigrúm sem verið hefur í ríkisfjármálum undanfarið, eftir mörg aðhaldssöm ár, hefur ekki verið nýtt sem skyldi til samfélagslegrar uppbyggingar. Skattar og gjöld á auðugustu hópa samfélagsins hafa verið lækkuð með þeim hætti að ríkið hefur orðið af 25–30 milljarða kr. tekjum á ársgrundvelli sem hefði sannarlega verið hægt að nýta til umbóta og uppbyggingar í þágu okkar allra.

Hvernig við sem samfélag ákveðum að haga fjármálum okkar er um leið ákvörðun um hvernig samfélag við viljum byggja upp. Við í Vinstri grænum viljum að markmið og tilgangur ríkisfjármála sé að tryggja öllum tækifæri til að njóta sín í samfélaginu og að öllum séu tryggð mannsæmandi kjör. Það er hægt að gera með fjármálastefnu og fjármálaáætlun sem miða að því að auka jöfnuð í samfélaginu með því að afla ríkissjóði tekna með réttlátum hætti. Sem síðan verða nýtt til að efla heilbrigðisþjónustu, menntakerfi, velferðarkerfi, til uppbyggingar innviða og til að tryggja viðkvæmustu hópunum mannsæmandi kjör.

Það er óábyrg hagstjórn að búa svo um hnútana að afla ekki nægra tekna, að þegar dregur úr umsvifum og þenslu verði óumflýjanlegt að skera niður. Hvar verður þá skorið niður? Það verður skorið niður í kostnaðarþyngstu kerfunum, í velferðarkerfinu, heilbrigðiskerfinu og menntakerfinu því að það er ávallt það sem mætir fyrst niðurskurði hægri ríkisstjórnar. Sá yfirvofandi niðurskurður samræmist varla grunngildum fjármálastefnunnar sem hér eru kynnt, sem eru sjálfbærni, varfærni, stöðugleiki og gagnsæi. Það er því miður fjarri. Ég harma þá ömurlegu pólitík sem hér er boðuð til næstu fimm ára í boði ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokksins, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar. Ég leggst gegn því að þessi fjármálaáætlun, sem svo skyldi kalla, verði samþykkt.