146. löggjafarþing — 71. fundur,  24. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[15:37]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir seinna andsvar hennar. Ég er hjartanlega sammála henni um þetta risamál sem er fjármál sveitarfélaganna og þá óvissuþætti sem koma fram í fjármálaáætlun ríkisins varðandi sveitarfélögin, þetta er algerlega óviðunandi. Þetta kemur líka fram í umsögn fjármálaráðs og í afar harðorðri umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga. Það er einfaldlega ólíðandi og óviðunandi hvernig engar greiningar liggja fyrir um þær áætlanir sem gerðar eru þegar kemur að samspili útgjalda ríkisins og síðan fjármála sveitarfélaga. Þarna þarf svo sannarlega að gera betur því fjármál sveitarfélaganna eru enn einn óvissuþátturinn í því hvort hin endanlegu afkomumarkmið sem á að mæla reynast á endanum á ábyrgð ríkisins eða sveitarfélaga. Ég hef lesið umsögn hv. þingmanns úr fjárlaganefndinni og tek undir hennar áhyggjur að þessu leyti.