146. löggjafarþing — 71. fundur,  24. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[15:41]
Horfa

Lilja Alfreðsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég biðst afsökunar á því hversu snögg ég var upp í ræðupúlt. Það er nú bara þannig að ég og hv. þm. Rósa Björk Brynjólfsdóttir æfðum frjálsar íþróttir á sama tíma þannig að við erum vanar að skiptast á keflinu. Þannig að ég fór bara í gamla gírinn. [Hlátur í þingsal.] Ég þakka hv. þingmanni svarið.

Þá langar mig að fara í næsta mál sem hún vék að, en það eru nettó-áhrifin af virðisaukaskattsbreytingunum sem eru aðeins 4 milljarðar. Ég verð að segja fyrir mitt leyti að mér finnst farið í mjög viðamiklar breytingar þegar nettó-áhrifin eru ekki meiri. Fyrst á að hækka bara til þess að lækka. Telur hv. þingmaður ekki að undirbúningur hefði þurft að vera mun meiri, sérstaklega í ljósi þess hve nettó-áhrifin eru í raun og veru lítil? Við hefðum getað farið í þetta með því að setja á komugjöld. Mér reiknast til að jafnvel fjárhæð eins og 2.000 krónur á miða gæti náð upp í þessa 4 milljarða.