146. löggjafarþing — 71. fundur,  24. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[15:43]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Gaman að rifja hér upp gamla takta með hv. þingmanni. En varðandi þessi nettó-tekjuáhrif sem hv. þingmaður kom inn á, og þegar upp er staðið reynast þau einmitt um 4 milljarðar. Það var nokkuð áhugavert að hlýða á ræðu hæstv. ráðherra ferðamála og iðnaðar hér fyrir nokkrum dögum síðan sem lýsti því yfir í ræðustól Alþingis að komugjöldin og tekjurnar af þeim yrðu óveruleg, þrátt fyrir að þau gætu hlaupið á nokkrum milljörðum, eins og hv. þingmaður benti á. Það þykir mér stórundarlegt þegar talað er um auknar tekjur í ríkissjóð, að tekjur sem hlaupa jafnvel á 1–4 milljörðum þyki óverulegar. Það þykir mér í besta falli kæruleysislegt og velti fyrir mér hvers vegna ráðherra ríkisstjórnarinnar finnist nokkrir milljarðar hér og þar vera óverulegir (Forseti hringir.) þegar okkur vantar milljarðana til að efla innviði samfélagsins.