146. löggjafarþing — 71. fundur,  24. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[16:27]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég held einmitt að það eigi ekki að gera neitt sérlega mikið fyrir þessar fjárhæðir. Ég held að í fjármálaáætluninni sé mikið um hjal um að gera ýmislegt en töluvert minna um fjármagn og áætlanir um hvernig koma eigi þeim í framkvæmd. Það er nú það sem við höfum kallað eftir, nákvæmum upplýsingum um hversu mikill peningur eigi að fara í hvern málaflokk fyrir sig svo við getum áttað okkur á því. Að ekki verði þessi stöðutaka sem ég hef vísað í, að stofnanir innan sama málefnasviðs hjóli hver í aðra, að ekki megi gefa hinum of mikinn pening því að þá fái þær of lítið og þær séu nú með mikilvægara málefnasvið en hinar. Það gengur ekki að viðhafa slík vinnubrögð. Auðvitað hafa þessar stofnanir lítinn ramma. Það veldur því að allir eru mjög óöruggir um hvort þeir geti staðið undir þeim miklu skyldum sem á herðar þeirra eru lagðar af yfirvöldum.