146. löggjafarþing — 71. fundur,  24. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[16:29]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Þetta er akkúrat það sem ég hef lesið út úr þessu og óttast að væri raunin. En svo kemur á móti að á sama tíma eru sett ákveðin markmið í fjármálaáætluninni, mælikvarðar, og settir mælikvarðar á ákveðnar stofnanir. Tökum landhelgismál, björgunarþjónustu með þyrlu innan efnahagslögsögu, þar sem hún er möguleg innan sex klukkustunda. Staðan 2016 er að það tekst í 40% tilvika og á að fara upp í 75% 2022. Það er augljóst að til að þetta verði að veruleika þurfa að fylgja auknir fjármunir sem ekki fara bara í þyrlukaup heldur í reksturinn og til að bæta þjónustuna. Þegar kemur að þjónustu með flugvél er farið upp í 95%. Það er það sem ég óttast. Það eru of litlir fjármunir en svo eru sett allt of stíf markmið sem engan veginn verður hægt að ná.