146. löggjafarþing — 71. fundur,  24. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[16:30]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Frú forseti. Það er annaðhvort of eða van í þessari áætlun þegar kemur að viðmiðum og markmiðasetningu. Þegar kemur að Landhelgisgæslunni þyrfti vissulega setja talsvert meiri pening í mannskap til að manna þessar þyrlur. Ekki fæst séð hvernig á að fjármagna það. Mögulega ætlast ríkisstjórnin til þess að Landhelgisgæslan eins og hún leggur sig verði á tvöföldum vöktum það sem eftir lifir þessarar fjármálaáætlunar því að þau eru ekki tilbúin að setja pening í að þjálfa nýjan mannskap eða tryggja fólki almennileg starfsskilyrði. Ég hef miklar áhyggjur af því að ef markmiðið er að auka viðbúnaðargetuna svona mikið en ekki er útfært almennilega hvernig standa eigi í því, verði það fólki jafnvel ofviða og þá verða kannski gerð leiðinleg mistök. Maður þarf að sjá hvernig vinna á að þessum háleitu markmiðum. En svo er hitt, mörg önnur markmið virðast svo litlar salthnetur að maður skilur ekki einu sinni hvernig þau rötuðu inn í fjármálaáætlun. Það er því vandlifað með þessa fjármálaáætlun, frú forseti.