146. löggjafarþing — 71. fundur,  24. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[17:05]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Herra forseti. Jú, ég óttast það að umræðan um fjárlög verði alveg eins og hún hefur verið og okkur hafi þar að leiðandi mistekist vegna þess að við náum því ekki fram við þessa umræðu sem var hugmyndin með innleiðingu þessara laga. Það er af ýmsum ástæðum svo ég sé nú sanngjarn gagnvart ríkisstjórnarflokkunum, en það eru m.a. allt of mörg markmið. Það hefur maður séð í öðrum löndum þar sem lagt hefur verið af stað með slíkt, að þeim fer síðan fækkandi á einhverjum árum. Þegar allt of mörg markmið eru, hundruð jafnvel, þá verður hvorki hnitmiðuð né málefnaleg umræða um einstaka hluti því að hægt er að tala um allt milli himins og jarðar. Það sem síðan skortir á, og er alveg rétt hjá hv. þingmanni, er að það vantar allar tölulegar upplýsingar, eins og við bentum á í nefndarstarfinu þegar ráðherrar og ráðuneytisstofnanir mættu og eins hérna í umræðunni. Það vantar allt sem við þurfum að hafa til þess að geta tekið umræðu um; er verið er að stefna í þessa átt, er aðalatriðið hjá þessum ráðherra og þessu ráðuneyti að setja peninga í þennan málaflokk, (Forseti hringir.) í þessa stofnun, í þetta verkefni, eða hefur hann enga peninga? Við vitum það hreinlega ekki.