146. löggjafarþing — 71. fundur,  24. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[17:06]
Horfa

Frsm. 4. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er alveg hárrétt hjá hv. þingmanni og ég vil þakka honum fyrir ræðu hans áðan, hún var einmitt mjög áhugaverð hvað þetta varðaði. Þetta plagg er einmitt stefnumörkunin. Við þurfum að taka það dálítið alvarlega. Ef stefnan er ekki lögð fram í þessari áætlun þá erum við að gefa út tóman tékka, ef við samþykkjum þetta þá getur stjórnin einfaldlega gert hvað sem hún vill af því að það stendur ekki í áætluninni. Í rauninni á hún bara að geta farið eftir því sem hún setur fram. Hún setur sér markmið, setur sér stefnu, og fer eftir henni. Ef hún sleppir því algjörlega að hafa markmið um stefnuna, einhverja stefnumörkun um t.d. 2.000 skáta eða eitthvað svoleiðis, það er ekki stefna, þá getur stjórnin gert hvað sem er. Það er stórt vandamál sem við búum við í eftirlitshlutverkinu. Þá getum við spurt: Er þetta að ganga? Þeir geta bara sagt já eða nei, og það er alveg jafn rétt svar.

Ég sé ekki annan möguleika en einfaldlega að vísa þessu (Forseti hringir.) til baka. Það er komið fullt af ábendingum. Það er hægt að gera miklu betur. Það þarf eins og hv. ráðherra bendir á, fyrirgefðu fyrrverandi, (Forseti hringir.) hv. þingmaður bendir á, það þarf ekki að vera (Forseti hringir.) það flókið og það viðamikið af markmiðum og stefnum til að geta (Forseti hringir.) unnið með það.