146. löggjafarþing — 71. fundur,  24. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[17:10]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Herra forseti. Það er akkúrat málið í hnotskurn, hugmyndin var að löggjafinn tæki þessa ákvörðun. Það er ekkert að því að meiri hlutinn taki þá ákvörðun og við í minni hlutanum komumst þá ekkert áfram með það. Það þarf ekkert endilega að vera að við séum öll 63 sammála um þær breytingartillögur sem verða gerðar. Það væri auðvitað frábært ef það tækist. Í einhverjum tilvikum væri það hægt, og flesta hluti afgreiðum við reyndar meira og minna í sátt héðan út, en ekki svona lykilatriði. Það sem skortir hér til þess að löggjafinn taki valdið til sín er að meirihlutaþingmennirnir sem gagnrýna plaggið alls staðar, líka í álitum sem þeir senda frá sér til fjárlaganefndar og meiri hluta fjárlaganefndar sem hafnar leið hæstv. fjármálaráðherra um hækkun á virðisaukaskatti, draga til baka alls konar aðra hluti og benda á að laga þurfi og bæta, en segja svo: Engu að síður ætlum við að samþykkja plaggið óbreytt. Það eru þá skilaboðin um að þingið sé ekki í standi til að taka (Forseti hringir.) ákvörðunina heldur hafi framkvæmdarvaldið tekið hana fyrir og þingmennirnir þora ekki annað en að dansa með af hræðslu við að stjórnin falli.