146. löggjafarþing — 71. fundur,  24. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[17:12]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að hv. þingmaður hafi algjörlega hitt naglann á höfuðið með þessum orðum sínum um að ríkisstjórnin sé hrædd um að stjórnin falli einfaldlega með þessari fjármálaáætlun, enda er hún mjög rýr.

Mér þykir alveg einstaklega skrýtið að meiri hlutinn sjái sér ekki fært að leggja fram eina einustu breytingartillögu þrátt fyrir 21 bls. nefndarálit á þessu 359 bls. plaggi. Þegar við vorum hérna í eldri gerð fjárlaga, sem voru ekki minni umfangs en núverandi þingsályktunartillaga um fjármálaáætlun, þá voru fleiri tugir breytingartillagna. Þar komu breytingartillögur frá meiri hlutanum af því að það er eðlilegt að við þinglega meðferð máls sem er jafn viðamikið og jafn mikilvægt og fjármálaáætlun, eða fjárlög ef út í það er farið, taki það breytingum í meðförum þingsins. Er hv. þingmaður ekki sammála mér að það er í hæsta máta óeðlilegt hvernig staðið er að málum?