146. löggjafarþing — 71. fundur,  24. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[17:25]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Það er kannski eðlilegt að við sem höfum efasemdir um þessa áætlun tjáum okkur meira um hana en hinir. En þegar maður les álit meiri hluta í hverri einustu þingnefnd kemur í ljós að efnislega eru stjórnarliðar eiginlega fullkomlega sammála okkur í minni hlutanum. Það eina sem greinir á er að við bendum á leiðir til að laga þá annmarka sem eru á fjármálaáætluninni með því að bæta inn útgjöldunum sem þau segja að vanti en leggja ekki til neinar breytingar til að ná inn.

Ég hlakka ekki til að standa hér í haust þegar umræddir stjórnarþingmenn átta sig á orðnum hlut, að þeir séu búnir að reyra sig í spennitreyju niðurskurðarfjárlaga og geta ekki staðið við stóru orðin í nefndarálitunum af því að þeir leggja ekki til neinar breytingar. Þá fer nú aldeilis allur agi út í veður og vind sem mönnum verður nú tíðrætt um að innleiða eigi með opinberum fjárlögum.