146. löggjafarþing — 71. fundur,  24. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[17:27]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég sé á svip forseta að hann deilir áhyggjum okkar af því að hér séu ekki stjórnarþingmenn til staðar. Hann er áhyggjufullur. Ég efast ekki um að stjórnarþingmenn hafi hlýtt á ræðu mína sem og annarra þingmanna, hvar sem þeir nú eru. Kannski eru þeir úti á skrifstofum að skrifa breytingartillögur. [Hlátur í þingsal.] (Gripið fram í.)

En það er nauðsynlegt til þess að við fáum samtal í þessa umræðu um mikilvægasta plagg ríkisstjórnarinnar að mati hæstv. fjármálaráðherra, sem stendur undir nafni og situr undir öllu talinu hér, að stjórnarþingmennirnir taki þátt í því. Það er sérstaklega mikilvægt þar sem þeir eru í álitum sínum meira og minna sammála gagnrýni okkar en ætla engu að síður (Forseti hringir.) að samþykkja plaggið óbreytt og senda framkvæmdarvaldinu til úrlausnar um hvernig fjárlögin eigi að vera. Ég hef áhyggjur af því að umræðan um fjárlög verði svolítið erfið í kjölfarið.