146. löggjafarþing — 71. fundur,  24. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[17:32]
Horfa

Smári McCarthy (P) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég verð að viðurkenna að ég skil ekki hvað meiri hlutanum gengur til. Burt séð frá þeirri virðingu sem þingmönnum er gert að bera fyrir þinginu, hvað um að bera smávirðingu fyrir sjálfum sér og sinna þeirri vinnu sem þau hafa látið kjósa sig til að vinna? Þau mæta ekki hingað, þrátt fyrir að hafa skilað af sér 140 blaðsíðum af nefndarálitum. Þetta er frábær vinna, ótrúlega góð niðurstaða. Svona eigum við að vinna öll mál, fara ofan í kjölinn og greina vel frá öllum göllunum. Ég er reyndar ekki viss um að allir gallarnir hafi verið taldir til í þessum álitum, en hvernig væri ef menn mættu hingað og gerðu grein fyrir máli sínu þegar þeir eru búnir að skrifa svona fín gögn? Þess væri óskandi. Akkúrat núna erum við hér mestmegnis minnihlutaþingmenn að reyna að eiga skynsamlegt samtal en samtalið er ekkert vegna þess að stjórnarmeirihlutinn mætir ekki.