146. löggjafarþing — 71. fundur,  24. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[17:33]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Það er góðra gjalda vert að hlusta. Ég ætla ekki að draga það af þeim stjórnarliðum sem hafa verið hér að þeir hafi ekki hlustað. En það var sagt um einhvern aðila að hann hefði meira gaman af að sitja frammi og borða kökur. Það er spurning hvort stjórnarliðar hafa vermt eldhússtólana meira en þingsætin. Svo sýnist vera. Það þýðir ekki bara að sitja í hliðarsal eða frammi, það þarf að sitja í þingsal og taka þátt í umræðunum. Um það snýst þetta, skoðanaskipti. Mér finnst alveg lágmark að þegar formenn stjórnarandstöðuflokkanna tala sé fjárlaganefndarfólk frá meiri hlutanum í sal og helst auðvitað einhverjir fleiri. Það er ekki við hæfi að þegar formenn flokka tala sé enginn í sal nema hæstv. ráðherra og hann var m.a.s. búinn að láta vita að hann gæti ekki setið hér nema hvað hann náði inn í blárestina þegar formaður Framsóknarflokksins talaði.

Herra forseti. Hér var óskað eftir því að ráðherrar (Forseti hringir.) yrðu kallaðir og ég spyr: Hefur forseti sent út boð?