146. löggjafarþing — 71. fundur,  24. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[17:39]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Það skyldi þó ekki vera rétt sem kom fram í máli hv. þm. Svandísar Svavarsdóttur áðan að hv. þingmenn meiri hlutans séu úti um öll hús að funda og reyna að koma sér niður á það um hvað þeirra meiri hluti snýst. Á forsíðu nefndarálits meiri hluta fjárlaganefndar stendur, með leyfi forseta:

„Þessi fjármálaáætlun ber þess merki að nýr meiri hluti hefur ekki haft nægan tíma til að undirbúa og útfæra fjármálaáætlun næstu ára.“

Það er alveg skýrt þegar maður fer að hugsa um það að þessi meiri hluti virðist ekki vita um hvað hann snýst og á meðan stöndum við hér í minni hlutanum sem virðumst þó hafa einhverja sýn á hvert við viljum fara með samfélagið. Ef þetta samtal getur ekki orðið á milli okkar allra langar mig eiginlega að leggja til (Forseti hringir.) að við sem höldum umræðunum uppi og virðumst þó vita hvert við viljum fara tökum bara yfir, klárum þetta og gerum betri áætlun. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)