146. löggjafarþing — 71. fundur,  24. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[17:43]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég verð að segja að ég varð pínulítið hissa yfir orðum hv. þm. Nichole Leigh Mosty. Ég gat ekki heyrt annað en að hv. þingmaður væri að upplýsa að hún hefði setið hér í forsetastól og hlustað á ræður sem hún virtist ekki gefa mikið fyrir, ræður hv. stjórnarandstöðu í þessum málum. Mér finnst það einkennilegur málflutningur. (SJS: Á hún ekki við stjórnarliðana?) Ja, stjórnarandstæðinga, fyrirgefðu, hér hefur ekki sést stjórnarliði í pontu síðan einhvern tímann þegar völvan var ung og sæt.

Heldur hv. þm. Nichole Leigh Mosty að hún sé sú eina sem hafi eitthvað mikið að gera hérna? Eigum við að fara aðeins yfir tímana sem við höfum setið í þingsal eða hlaupið til annarra funda? Þetta snýst ekki um það. Þetta snýst um að sinna þeim verkum sem við erum kosin til. Hv. þingmaður getur talað eins og gagnlegt samtal sé eitt og að hér hafi ekki átt sér stað gagnlegt samtal. Ég veit það þó að samtal (Forseti hringir.) á sér ekki stað þegar annar aðilinn mætir ekki til þess. Það er ósköp einfalt mál. Ef menn hafa ekki dug í sér til að mæta til samtalsins þýðir ekki að fara að kvarta yfir að samtalið sé ekki gagnlegt. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)