146. löggjafarþing — 71. fundur,  24. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[18:14]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Það er ýmislegt sem maður er undrandi á í þessari fjármálaáætlun sem er mjög rýr að efnum. Þingsályktunartillaga liggur fyrir um aðgerðaáætlun í orkuskiptum og að endurnýjanlegir orkugjafar verði 40% í landinu árið 2030. Það virðast ekki vera miklir fjármunir eyrnamerktir þessum málaflokki í fjármálaáætlun. Það er hreinlega lækkun á næsta ári eins og áætlunin lítur út í dag í þessum málaflokki. Á tímabilinu þar á eftir, næstu fjögur ár á eftir, er verið að bæta í nýsköpunar- og rannsóknarsjóði einungis 120 millj. kr. sem er auðvitað ekki há fjárhæð í þessu samhengi. Ef það þarf að efla þetta stuðningskerfi og auka rannsóknir þá hlýtur að þurfa að efla rannsóknar-, þróunar- og nýsköpunarsjóði, en þar er ekkert á bak við. Það er svo margt í þessari fjármálaáætlun sem eru metnaðarfullar aðgerðir og markmið og allt lítur voða vel út á pappírum, en þegar menn fara að skoða forsendurnar og hvað fjármagn eigi að setja í þetta, þá er eiginlega bara komið að tómum kofanum og keisarinn er í engum fötum. Innihaldið í fjármálaáætlun stendur ekki undir öllum þeim metnaðarfullu og fjálglegu lýsingum á ýmsum aðgerðaáætlunum, sem vissulega eru til góða eins og orkuskipti.