146. löggjafarþing — 71. fundur,  24. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[18:16]
Horfa

Lilja Alfreðsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með hv. þingmanni, nöfnu minni, að ef menn ætla að vera með trúverðuga áætlun þá verður fjármagnið auðvitað að fylgja með. Þess vegna nefndi ég sérstaklega í ræðu minni að ég sakna þess og mér finnst það mjög óábyrgt af okkur að fara þannig inn í næstu ár þar sem við vitum að framfarir og hagvöxtur verður drifinn áfram af þekkingarsamfélaginu. Nágrannaríki okkar og þau ríki sem við viljum bera okkur saman við, Norðurlöndin og önnur ríki, leggja gríðarlega áherslu á allt sem tengist rannsóknum og nýsköpun. Ég vil sjá okkur fara sömu leið. Þegar við förum yfir þætti eins og framþróun í orkumálum, að nýta sér tæknina og annað slíkt, þá verðum við hreinlega að fjárfesta í þessu vegna þess að þá erum við í leiðinni að fjárfesta í framtíðinni. Þess vegna tek ég líka háskólastigið sérstaklega fram vegna þess að ef við ætlum að vera í fremstu röð hvað það varðar þá verðum við að vera með öflugan rannsóknarháskóla. Eins og ég skil háskólasamfélagið þessa dagana þá segja þeir: Við munum dragast aftur úr vegna þess að ekki er verið að setja nægilegt fjármagn þarna inn. Nákvæmlega það sama á við það sem við ræðum hér.

Þess vegna er að mörgu leyti fimm ára ríkisfjármálaáætlun og öll umræðan sem á sér stað í þingsal mjög góð. Við sem sitjum hér á þingi áttum okkur mun betur í því í hvaða átt stjórnvöld eru í raun og veru að fara og sérstaklega að við getum dregið fram hvar vankantarnir eru. Ég geri fastlega ráð fyrir því að hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra muni taka tillit til margra þeirra athugasemda sem hér koma fram.