146. löggjafarþing — 71. fundur,  24. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[18:25]
Horfa

Lilja Alfreðsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að koma með góðar spurningar og athugasemdir um fimm ára ríkisfjármálaáætlunina. Ég ætla fyrst að fara aðeins yfir styrkingu krónunnar og hvað sé mögulega hægt að gera. Að mínu mati þarf Seðlabankinn að halda áfram að kaupa erlendan gjaldeyri. Jafnvel þó að hið svokallað neikvæða „carry“ sé talsvert mikið þá þarf í raun og veru að mínu mati að ríkja ákveðin þjóðfélagsleg sátt um það, núna þegar við erum að fara inn í sumarvertíðina, að Seðlabankinn geri eins og hann er búinn að gera, hann hefur verið að stækka gjaldeyrisforðann, og þurfi bara að halda áfram að vera á þeirri hlið.

Að mínu mati mættum við líka skipta þessu upp. Ég hef rætt um það að við eigum að setja upp svokallaðan stöðugleikasjóð. Það væri hægt að setja hluta af gjaldeyrisforðanum inn í stöðugleikasjóð og hann gæti fjárfest í eignum sem bera hærri ávöxtun, vegna þess að gjaldeyrisforðinn og fjárfestingarstefnan sem tengist honum er mun varfærnari. Að mínu mati eigum við að líta til Noregs. Við eigum að rukka auðlindagjöld, ferðaþjónustan nýtir auðlindir og selur aðgang að náttúru Íslands, þannig að mér finnst að komugjöld þegar fram líða stundir ættu að fara í svona stöðugleikasjóð. Mér finnst að veiðigjöld gætu farið í slíkan sjóð, líka arðurinn af Landsvirkjun.

Við eigum að búa í haginn fyrir framtíðina og eigum að nota tækifærið þegar svona vel árar. Þegar það er svona mikið gjaldeyrisinnflæði þá þarf að taka það úr umferð með gjaldeyriskaupum Seðlabanka Íslands. Margir hafa sett spurningarmerki við það þegar tilkynnt var að bankinn væri að hætta reglubundnum gjaldeyriskaupum. En ég hef alltaf skilið það sem svo að þeir munu samt sem áður halda áfram að kaupa. Ef það verður ekki þá er alveg ljóst að það verður áframhaldandi styrking.