146. löggjafarþing — 71. fundur,  24. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[18:27]
Horfa

Einar Brynjólfsson (P):

Virðulegur forseti. Í gærkvöldi hafði sá ágæti þingmaður sem nú situr á forsetastóli á orði að honum þætti nú ekki mikið til þessar fjármálaáætlunar koma og væri réttast að sturta henni í klósettið. Ég réð reyndar frá því, enda yrði það til þess að stífla klósett og frárennsli og ekki er nú miklum fjármunum fyrir að fara í fjármálaáætlun til frárennslismála. Ég held að ekki sé á það bætandi.

Mig langar til að hafa hér orð á umsögn minni sem ég skilaði til fjárlaganefndar sem nefndarmaður í umhverfis- og samgöngunefnd. Þar skrifaði ég ekki ýkja langan texta, enda ekki gott að skrifa — jú, vissulega hefði ég getað skrifað heljarinnar langhund um það sem betur mætti fara en slíkur langhundur yrði alltaf óljós og ómarkviss vegna þess að það vantar nákvæmar útlistanir á tölum og markmiðum og öðru slíku.

Samkvæmt 6. gr. laga um opinber fjármál er gagnsæi eitt af fimm grunngildum þeirra. Því kemur á óvart að í fjármálaáætlun er ekki hægt að sjá hvernig fjármagni er ætlað að skiptast milli einstakra málaflokka hvers málefnasviðs heldur er einungis um að ræða samtölu hvers málefnasviðs. Undirrituðum er því nokkur vandi á höndum við þetta verkefni þar sem áðurnefnt lögbundið gagnsæi skortir greinilega.

Undir mína nefnd heyra þrjú málefnasvið, þar á meðal málefnasvið 8 sem fjallar um sveitarfélög og byggðamál. Í fjármálaáætlun segir á bls. 168, með leyfi forseta:

„Ein stærsta áskorun málefnasviðsins er þróun sjálfbærra byggðarlaga í landinu. Fjölmargt hefur áhrif þar á, svo sem þróun samgangna og fjarskipta, orkumál, þróun atvinnugreina, opinber þjónusta, mannfjöldaþróun í landshlutum, þar með talið framboð og menntun starfsfólks. Í því skyni er mótuð byggðaáætlun og starfræktar sóknaráætlanir landshlutanna.“

Hér skortir, eins og í flestum öðrum málefnasviðum, nákvæmari útfærslur. Eitthvað er minnst á fyrirhugaðar aðgerðir og áætlanagerð en sjaldnast minnst á tímasetningar eða fjárhæðir. Fulltrúar sveitarfélaganna hafa árum saman bent á nauðsyn þess að styrkja tekjustofna sveitarfélaganna með einhverjum ráðum. Ljóst er að útgjöld þeirra eru ekki í samræmi við tekjur. Í því sambandi má nefna þungar byrðar á borð við þjónustu við fatlaða og aldraða, og fráveitumál í Mývatnssveit, svo dæmi sé tekið. Ekkert er fjallað um uppbyggingu innviða á ferðamannastöðum eða hlutdeild sveitarfélaga í gistináttagjaldi og/eða virðisaukaskatti, þótt ljóst sé að útgjöld sveitarfélaga vegna ágangs ferðamanna séu umtalsverð. Tryggja verður að fjármagn til sóknaráætlana landshluta verði tryggt til langframa en svo virðist ekki vera samkvæmt fjármálaáætlun.

Málefnasvið 11 sem heyrir undir þessa nefnd sem ég sit í, samgöngu- og fjarskiptamál, er næst á dagskrá hjá mér.

Ljóst er að þörf er á stórátaki í samgöngumálum hér á landi, jafnt í lofti, á láði og legi. Sem dæmi má nefna að 10–12 milljarða kr. vantar til að ráða bót á uppsafnaðri viðhaldsþörf vegakerfisins. Það væri til að æra óstöðugan að tíunda hér allar þær brýnu nýframkvæmdir sem fyrir liggur að þörf er á í vegagerð hér á landi.

Hafnaframkvæmdir hafa verið vanræktar árum saman og þær þarf að bæta víða um land, ekki hvað síst með rafmagnstengingum fyrir allar stærðir og gerðir skipa svo að þau þurfi ekki að brenna olíu, bundin við bryggju, með tilheyrandi mengun.

Eðlilegt væri að flugsamgöngur innan lands yrðu skilgreindar sem hluti af almenningssamgöngum og nytu fjárstuðnings í samræmi við það. Í því samhengi mætti skoða hina svokölluðu skosku leið við niðurgreiðslu flugfargjalda fyrir heimafólk.

Samgöngustofa býr við fjársvelti og mun að öllu óbreyttu þurfa að hætta skráningu ökutækja um mitt næsta ár. Úr þeim vanda mætti bæta með því að leyfa stofnuninni að njóta stærri hluta markaðra tekna en nú er gert.

Um umhverfismál segir í fjármálaáætlun á bls. 240, með leyfi forseta:

„Segja má að helstu áskoranir innan málefnasviðsins séu þrjár. Í fyrsta lagi að finna leiðir til að bregðast við þeim skuldbindingum í loftslagsmálum sem Ísland hefur undirgengist með Parísarsamkomulaginu. Í öðru lagi að tryggja sjálfbæra nýtingu lands, endurheimt vistkerfa og vernd náttúrunnar, m.a. samfara auknu álagi vegna verulegrar fjölgunar ferðamanna er sækja landið heim. Í þriðja lagi að finna leiðir til að tryggja ásættanlegt vöktunar- og varnarstig vegna náttúruvár, en hætta á mann- og eignatjóni hefur vaxið umtalsvert bæði vegna aukins ferðamannastraums um áhættusvæði árið um kring vegna áhrifa loftslagsbreytinga á veðurfar og aukinnar skjálftavirkni í megineldstöðvum.“

Hér skortir, að hluta til, líkt og í öðrum málefnasviðum, nánari útfærslur, upplýsingar um ráðstöfun fjármagns og nákvæmari tímasetningar.

Full ástæða er til að hafa áhyggjur af umhverfismálum á Íslandi, ekki hvað síst loftslagsmálum. Skýrsla Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands dregur upp dökka mynd af ástandinu og ekki er hægt að sjá að fyrirliggjandi fjármálaáætlun geri ráð fyrir því grettistaki sem lyfta verður í þeim málaflokki.

Auðvelt væri að draga úr losun koltvísýrings með beinum aðgerðum. Skógarbændur gætu auðveldlega plantað miklu fleiri plöntum en nú er gert, en til gamans má nefna að núna er einungis gróðursett í 1 þús. hektara lands á ári en fyrir efnahagshrun var gróðursett í 2 þús. hektara á ári. Núverandi sveltistefna í skógrækt hefur gert það að verkum að flestar skógræktarstöðvar á landinu glíma við afar bágan fjárhag. Nú er svo komið að miklar líkur eru á að eina sérhæfða skógræktarstöðin sem framleiðir skógarplöntur eingöngu og sérstaklega muni hugsanlega þurfa að leggja upp laupana. Þar er svo sannarlega skarð fyrir skildi.

Metnaðarfyllri markmið skortir varðandi rafhleðslustöðvar fyrir bifreiðar. Samkvæmt orkuskiptaáætlun er gert ráð fyrir rúmlega 200 milljónum til verksins á næstu þremur árum. Þá upphæð þyrfti að tvöfalda eða þrefalda, hið minnsta, til að flýta fyrir orkuskiptum í samgöngum. Styðja þarf einnig við aðrar tegundir af umhverfisvænu eldsneyti á borð við vetni, metan, metanól og lífdísil.

Virðulegi forseti. Fjármálaráð skrifaði álitsgerð um þessa fjármálaáætlun og skilaði henni af sér þann 14. apríl sl. og hefur ýmislegt við fjármálaáætlun að athuga. Grunngildi opinberra fjármála eru sjálfbærni, varfærni, stöðugleiki, festa og gagnsæi. Fjármálaáætlunin ber þess merki að mati þessa ágæta fjármálaráðs að grunngildamiðuð vinnubrögð hafi almennt ekki verið höfð að leiðarljósi við gerð hennar, að vísað sé á fáum stöðum í lagatexta og grunngildin nefnd í því samhengi en umfjöllun sé rýr. Í ljósi grunngildis um gagnsæi þurfi stjórnvöld að vera sjálfum sér samkvæm í stefnumörkun og ljóst þurfi að vera hvernig áætlun samræmist stefnu. Það að þetta sé ekki gert er í andstöðu við grunngildi um gagnsæi. Í áætluninni séu lykiltölur settar fram, ýmist á nafnverði hvers tíma eða sem hlutfall af vergri landsframleiðslu. Sumar þessara talna sé ekki að finna í köflum áætlunarinnar heldur einungis fremst þar sem lykiltölur eru birtar. Þetta geri samanburð erfiðan og sé ekki í anda gagnsæis.

Fjármálaráð fjallar einnig um að OECD tiltaki tíu grundvallarreglur sem hafa skuli að leiðarljósi við stjórnun opinberra fjármála. Fjármálaráð telur að fjármálaáætlunin endurspegli þessar reglur ágætlega en þó með einni undantekningu. Í grundvallarreglum OECD, þar sem menn kunna hvernig haga á hlutunum, segir að hanna þurfi umgjörð fjárfestingarákvarðana hins opinbera og fjármögnunar þeirra til að mæta þörfum samfélagsins á skilvirkan hátt, með kostnað og ábata að leiðarljósi og með samræmdum hætti. Viðurkennd aðferð við slíkt er kostnaðar- og ábatagreining. Henni er einmitt beitt í flestum löndum í kringum okkur. Slík greining er ekki gerð í fjármálaáætlun.

Í fjármálaáætlun er ekki fjallað um hvernig tímasetning fjárfestinga í innviðum skuli samræmast hagsveiflu. Byggir þar einungis á forgangsröðun ríkisstjórnarinnar án þess að hún sé rökstudd frekar. Slíkt samræmist ekki grunngildum um varfærni, gagnsæi og stöðugleika. Þá telur fjármálaráð að ekki sé nægilega skýrt í hvaða verkefni fjármunir einstakra málefnasviða fari heldur sé það falið ráðherrum viðkomandi málefnasviðs að ákveða slíkt. Ómögulegt sé að meta áhrif á stöðugleika og það sé í andstöðu við grunngildi um gagnsæi og stöðugleika.

Fjármálaráð telur að það vanti sameiginlegan rauðan þráð þar sem væri greint frá því hvernig nýtingu fjármagns hvers málefnasviðs væri úthlutað. Fjármögnun er ekki einu sinni flokkuð niður á málaflokka hvers málefnasviðs. Lítið sem ekkert sé minnst á innkaup í stefnumótun málefnasviða. Því vanti mikið upp á gagnsæi við þetta. Ógagnsæi geti leitt til þess að það skorti á festu þar sem ekki er ljóst frá upphafi hvernig fjármunum verði varið. Þetta er náttúrlega sérstaklega mikilvægt upp á nefndarvinnuna.

Ég hef stundum haft á orði að stefnumótun stjórnvalda hafi lengi verið í skötulíki. Að hún sé sjaldnast til langs tíma, sé svona oftast til fimm ára, og slík stefnumótun sé unnin af embættismönnum í ráðuneytum. Vissulega höfum við áætlanir sem eru til lengri tíma en þetta er það sem mér hefur þótt á þeim stutta tíma sem ég hef verið hér á Alþingi.

Tíminn hleypur frá mér, virðulegur forseti. Ég hleyp yfir hluta og kem að máli sem er mér hjartfólgið. Það er framhaldsskólinn. Nú síðast í morgun barst af því frétt að nemendur væru í miklum mæli hættir að stunda íþróttir og tómstundir í framhaldsskólunum vegna þess hversu mikið álag væri á þeim í kjölfar styttingar náms til stúdentsprófs. Og að þeim sæki meiri kvíði og depurð en áður var, og var þó ekki á bætandi. Í fjármálaáætlun segir á bls. 265, með leyfi forseta:

„Langvarandi aðhald í fjárheimildum til framhaldsskóla hefur sett mark sitt á starfsemi framhaldsskóla og rekstrarstöðu þeirra. Undirfjármögnun hefur bitnað á gæðum kennslu og námsframboði og hvorki hefur verið unnt að veita viðunandi stoðþjónustu né endurnýja búnað og kennslutæki. Gert var ráð fyrir að fjárhagslegt svigrúm sem myndaðist við fækkun nemenda yrði notað til að ná jafnvægi í fjármögnun framhaldsskóla.“

Það er þetta með framtíðarsýnina og meginmarkmiðin. Á bls. 266 er fjallað um það, þ.e. framtíðarsýn og meginmarkmið í framhaldsskólakerfinu. Þar stendur, með leyfi forseta:

„Framtíðarsýn málefnasviðsins er að nemendur verði virkir og ábyrgir borgarar í lýðræðisþjóðfélagi að loknu námi á framhaldsskólastigi. Þeir verði einnig vel búnir undir þátttöku í atvinnulífinu og fyrir fræðilegt og starfstengt háskólanám.“

Þetta eru göfug markmið, sem ég hef reyndar séð í öllum þeim námskrám sem í gildi hafa verið undanfarin 18 ár og eflaust lengur, en ég hef sem sagt unnið á þessu stigi undanfarin 18 ár. Ég held áfram með tilvitnunina, með leyfi forseta:

„Meginmarkmið málefnasviðsins til 2022 er að fleiri og yngri nemendur ljúki starfsnámi sem skili þeim vel undirbúnum undir fjölbreytt störf í atvinnulífinu og áframhaldandi nám.“

Mér þykja þetta svolítið áhugaverð orð, að fleiri og yngri nemendur eigi að ljúka starfsnámi og koma þannig út í atvinnulífið vegna þess að starfsnám hefur jú legið óbætt hjá garði árum saman og hvorki gengið né rekið í eðlilegum úrbótum og breytingum í átt til framtíðar.

Svo er minnst á uppáhaldið mitt, reiknilíkanið svokallaða. Hér stendur, og ég held áfram með tilvitnun með leyfi forseta, á bls. 266:

„Ráðuneytið vinnur að gerð nýs reiknilíkans þar sem jafnt verður hugað að almennum grunnþörfum skólanna og sérstökum þörfum þeirra.“

Virðulegur forseti. Ég sem nýr, ungur kennari tók þátt í heljarinnar ráðstefnu framhaldsskólakennara á Norðurlandi í októbermánuði 1998. Þar var mikið rætt um meingallað reiknilíkan og að það þyrfti að bæta allverulega og ýmis rök tínd til, sem ég ætla svo sem ekki að nefna hér. En gott og vel. Þetta er jú sami söngur og ég heyrði alla tíð síðan á hverjum einasta fundi þar sem kennarar úr fleiri en einum skóla komu saman.