146. löggjafarþing — 71. fundur,  24. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[18:48]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni ágæta ræðu. Mig langar aðeins að fá að spyrja hv. þingmann út í nokkuð sem truflar mig og kannski hefur hann fundið svarið. Ég hef setið í hv. umhverfis- og samgöngunefnd og starfað þar við hlið hv. þingmanns og veit að hann hefur gott til málanna leggja og er glöggur á málin. Þar hef ég aðeins klórað mér í kollinum yfir því hvernig koma eigi í verk þeim loforðum og yfirlýsingum sem komið hafa úr munni hæstv. ríkisstjórnar — eða penna. Ég leyfi mér að vitna í stjórnarsáttmálann, með leyfi forseta. Fyrst er talað um aðgerðaáætlun í loftslagsmálum í samræmi við Parísarsamkomulagið og svo segir:

„Áætlunin feli meðal annars í sér græna hvata, skógrækt, landgræðslu og orkuskipti í samgöngum. Unnið verður að eflingu græna hagkerfisins.“

Nú fjöllum við um fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar til næstu fimm ára þar sem öll þau verkefni sem ég taldi upp — ég tek það fram að ég kættist mjög þegar ég las þetta í stjórnarsáttmálanum, að hér ætti aldeilis að fara að láta verkin tala í anda nútímalegra vinnubragða, en ég hef ekki séð þessara verkefna stað í fjármálaáætluninni. Heildarramminn utan um umhverfismál hækkar um u.þ.b. milljarð ef ég man rétt. Hv. þingmaður kom ágætlega inn á skógrækt, landgræðslu, þörfina þar. Getur hv. þingmaður aðstoðað mig í því máli? Er þetta eitthvað annað en orðin tóm? Hefur hann fundið fjármunina sem ættu að fylgja þessum loforðum?