146. löggjafarþing — 71. fundur,  24. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[18:55]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Hann kemur inn á marga þætti í ræðu sinni eins og ógagnsæið í þessari áætlun, það sé erfitt að greina milli stofnkostnaðar og rekstrarkostnaðar ýmissa þátta. Mér heyrðist hann jafnframt koma inn á að erfitt hefði verið að fá gögn frá ráðuneytum til að fá meiri sundurliðun um hvernig ætti að fjármagna þau markmið sem sett eru fram í áætluninni. Mig langar að segja að þetta átti alla vega við um þá nefnd sem ég á sæti í, þ.e. velferðarnefnd, og spyr hv. þingmann hvort það sama hafi gilt um þá nefnd sem hann á sæti í.

Einnig kom hv. þingmaður inn á starfsnámið og ræddi m.a. að það hefði legið óbætt hjá garði. Mig langar að spyrja hvort hann sjái einhver merki í þessari ríkisfjármálaáætlun um að ýta eigi undir þetta nám, hvort það sjáist aukning á fjármagni í þann málaflokk og ef svo er hvort þau markmið, hvernig eigi að ná þeim, séu fjármögnuð.