146. löggjafarþing — 71. fundur,  24. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[19:04]
Horfa

Einar Brynjólfsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Haraldi Benediktssyni fyrir andsvarið. Ég verð greinilega að kíkja á Bændablaðið. Það liggur enn inni á skrifstofu minni. Ég les það að jafnaði spjaldanna á milli, enda er þar á ferð áhugavert plagg. Ég minnist þess að í marsmánuði var m.a. rætt um kjötrækt, eitthvað sem við Píratar höfum talað um. Svo virðist sem blaðamenn á Bændablaðinu séu búnir að átta sig á að þetta er framtíðarmúsik og raunhæf, ekki óraunhæf.

Það gleður mig að hv. þingmaður hafði gaman af að lesa umsögn mína um fjármálaáætlun. Það er nú þannig að þegar erfitt er að festa hönd á einhverju áþreifanlegu, og mér reyndist það svo sannarlega erfitt í þessari áætlun, þá fær maður aðstoð skáldgyðjunnar og skrifar innblásna texta. Ég fjallaði m.a. um seyru sem vannýtta auðlind. Ég veit að hv. þingmaður hafði gaman af henni.

Hvað ógagnsæi varðar og breytingartillögu Vinstri grænna verða Vinstri græn að svara fyrir það. Ég fagna öllum góðum tillögum, ef þær eru vel útfærðar. Vandinn er sá að ég held að slík tillaga geti aldrei orðið sérstaklega vel útfærð vegna þess að það skortir allar þær forsendur (Forseti hringir.) sem fjármálaráðuneytið eitt hefur aðgang að.