146. löggjafarþing — 71. fundur,  24. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[20:10]
Horfa

Óli Björn Kárason (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka kærlega fyrir þetta svar sem var nú kannski ekki jafn efnisríkt og ég var að vonast eftir. Það er nú gert ráð fyrir að skatttekjur ríkissjóðs verði 200 milljörðum hærri árið 2022 en árið 2018 í fjármálaáætluninni. Síðan ætlar hv. þingmaður að bæta við um það bil 75 milljörðum árið 2022. Það væri gaman að vita hvaðan þeir fjármunir eiga að koma. Það er auðvitað smásamkeppni, ég geri mér grein fyrir því, milli stjórnarandstöðunnar. Þó að Samfylkingin gangi ekki jafn langt eru boðaðir um 236 milljarðar. Þið eruð 100 milljörðum fyrir ofan og ég óska ykkur kærlega til hamingju með það. En hvaðan ætlar þingmaðurinn … er hann að boða hér umfangsmiklar hækkanir á tekjuskatti einstaklinga? Hvað er það? Hvers konar skatta, auðlegðarskatta, (Forseti hringir.) á að innleiða hér aftur o.s.frv.? Því að það skiptir máli þegar við tölum um fjármálaáætlunina hvað þið eruð að hugsa, ekki satt?