146. löggjafarþing — 71. fundur,  24. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[20:13]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Auðvitað hefði það verið mjög gott ef hægt hefði verið að ná breiðri sátt um að taka allar þær athugasemdir sem bárust um það svið sem við höfðum til umfjöllunar í atvinnuveganefnd, skoða þá gagnrýni og taka inn í tillögu til fjárlaganefndar um breytingar. En það var takmarkaður áhugi á því eða enginn, fannst mér, af hálfu meiri hlutans að gera slíkt. (Gripið fram í: Er þetta sanngjarnt?) Þess vegna gerist það þannig að menn leggja bara fram nákvæmlega það sem þeir telja að eigi að vera þeirra umsögn miðað við þær gagnrýnisraddir sem komu fram og voru rökstuddar, bæði í umsögnum og hjá gestum við umræðu um þessi mál. Þannig er það nú bara. Það er bara langt bil á milli þessara flokka. (Forseti hringir.) Menn nálgast þetta mál á mjög ólíkan hátt. En ég tel að það eigi að reyna að ná einhverjum samlegðaráhrifum í svona málum. (Gripið fram í.) Mér fannst sá vilji ekki vera til staðar í umræðunni.