146. löggjafarþing — 71. fundur,  24. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[20:18]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég er á því að ferðaþjónusta úti á landsbyggðinni þurfi að fá meðbyr áfram til að geta byggst upp. Þar eru mikil tækifæri. Þetta er mikið sóknarfæri fyrir þá landshluta sem hafa kannski verið að dragast mikið aftur úr, að fá þetta upp í hendurnar, að geta byggt sig upp í ferðaþjónustu og gert hana að heilsársstarfsemi. Það er að gerast núna. Þess vegna er mjög slæmt ef menn slá þá uppbyggingu niður. Ég er mjög ánægð yfir því að Framsóknarflokkurinn er kominn til okkar Vinstri grænna varðandi komugjöldin og ég er hjartanlega sammála því að það verður að tengja gistináttagjaldið við verð gistingar. Það er ekki eðlilegt að fimm stjörnu hótel og tjaldstæði í Húnavatnssýslu séu frá og með áramótum með 300 krónur, var 100 krónur, á hverja gistinótt. Það er ekki eðlilegt. Það verður að tengja þetta verðinu.