146. löggjafarþing — 71. fundur,  24. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[20:28]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Frú forseti. Ég vil í upphafi máls míns leyfa mér að þakka hæstv. ráðherra fyrir að vera hér með okkur, sýna þingheimi þá virðingu og tillitssemi og hafa þá einurð að sitja með okkur meðan við ræðum fjármálaáætlun. Þetta er enginn venjulegur dagur í lífi hæstv. ráðherra, sagði mér ólyginn, því að í dag á Viðreisn eins árs afmæli og er enn á lífi, þótt sitthvað megi segja um heilsuna. (Fjmrh: Aldrei sprækari.) Ætli hún sé ekki í besta falli eftir atvikum, eins og oft er sagt. Til hamingju með daginn. (Fjmrh: Takk fyrir það.)

Virðulegur forseti. Ég mun í ræðu minni fjalla um minnihlutaálit Samfylkingar um málefni á sviði velferðarnefndar. Verkefni nefndarinnar eru fjölþætt og mikilvæg og snerta alla landsmenn, allt frá vöggu til grafar, þ.e. sjúkra- og lífeyristryggingar, félagsþjónustu, málefni barna, málefni aldraða og málefni fatlaðra, húsnæðismál, vinnumarkaðsmál og heilbrigðisþjónustu. Við umfjöllun fjármálaáætlunar í nefndinni var almennt rætt um vinnubrögð og verklag sem snýr að þinglegri meðferð. Í þetta fyrsta sinn í nýju lagaumhverfi voru vinnubrögð heldur varfærnisleg, leitandi og ómarkviss að mjög mörgu leyti. Þar voru allir á sama báti. Þegar fram í sækir er brýnt að fastanefndum gefist kostur á að fjalla miklu ítarlegar um fjármálaáætlun með lengri umsagnarfresti og að fellt verði í skorður hvernig greining og meðferð áætlunarinnar skuli háttað. Þá er ótækt annað en að búið verði svo um hnútana að framsetning fjármálaáætlunar sé skýr, og miklu gleggri forsendur liggi fyrir, sérstaklega að því er varðar framsetningu á tölum. Það er haldlítil og ómarkviss vinna ef nefndir hafa ekki í umsagnarvinnu sinni aðgang að áætluðum kostnaði við einstakar aðgerðir sem stefna á að eftir því sem hægt er og mögulegt. Þörf er á samræmdum verklagsreglum um það hvernig skuli áætla kostnað aðgerða í þessu mikilvæga stefnumótunarplaggi. Nauðsyn er á auknu gegnsæi, eins og lögin um opinber fjármál gera ráð fyrir, og að birta í áætluninni útgjöld brotin niður á málaflokka. Þá ber það vott um ótrúlegan losarahátt, ég tek ekki dýpra í árinni, að í framsetningu fjármálaáætlunar sé ekki sundurliðaður annars vegar rekstrarkostnaður og hins vegar kostnaður við einstakar fjárfestingar á tilteknu málefnasviði. En þannig var þetta í fyrsta sinnið og margir hafa haft á því orð.

Ég ætla í stuttu máli gera grein fyrir afstöðu Samfylkingarinnar varðandi helstu málaflokka sem snúa að velferðarmálum. Fulltrúi okkar í fjárlaganefnd, hv. þm. Oddný G. Harðardóttir, hefur í ræðu sinni gert ítarlega grein fyrir ýmsum þáttum sem lúta að ólíkum málaflokkum og breytingartillögum okkar í heild, sem allt er vönduð vinna og lagt fram af mikilli ábyrgð. Þar er rauði þráðurinn bættur hagur almennra launþega og aukinn jöfnuður, réttlæti og sanngirni í þjóðfélaginu.

Varðandi sjúkrahúsþjónustu kemur fram í fjármálaáætluninni að framlög til hennar verða aukin allnokkuð, eða um 16 milljarða á tímabilinu til ársins 2022, eða sem nemur um 20%. Þar af nema framlög vegna byggingar nýs Landspítala bróðurpartinum, 8,7 milljörðum, og aukin framlög til annarra þátta 7,3 miljörðum, sem er 9% raunaukning á tímabilinu. Ef þetta verður niðurstaða áætlunarinnar mun vera ljóst að rekstrarvandi blasir við öllum heilbrigðisstofnunum í landinu þegar á næsta ári og það eru blikur á lofti strax núna á yfirstandandi ári. Þetta á við um Landspítala og Sjúkrahúsið á Akureyri eins og aðrar heilbrigðisstofnanir vítt og breitt um landið. Þessi aukning er til muna minni en sú lágmarksviðbótarfjárþörf sem t.d. Landspítalinn hefur áætlað að þurfi til reksturs spítalans, m.a. vegna mannfjöldaþróunar, styttingar biðlista, lágmarksviðhalds og tækjakaupa auk annarra aðkallandi verkefna. Bara Landspítalinn einn þarf líklega 5 milljarða kr. til viðbótar til að komast á sæmilega kyrran sjó, eða í var a.m.k. um sinn. Í fjármálaáætluninni er ekki ljóst hvort gert sé ráð fyrir fjármunum til stofnframkvæmda við Sjúkrahúsið á Akureyri né á hvaða tímabili þau munu falla til. Ljóst er að stofnframkvæmdir og stór endurbótaverkefni bíða víðar á heilbrigðisstofnunum um landið, t.d. á Selfossi, á Akranesi og í Stykkishólmi. Ekki er með nokkru móti hægt að átta sig á því hvort gert sé ráð fyrir einhverju fé til þeirra verkefna í fyrirliggjandi fjármálaáætlun og líklegra að svo sé ekki. Það mun kalla á ósætti og vanda í starfsemi þessara stofnana.

Heilsugæsla í landinu telst til þjónustu sem er heilbrigðisþjónusta utan sjúkrahúsa. Heilsugæsla víða um land hefur verið veitt með ófullnægjandi hætti undanfarin ár og svo hefur verið frá efnahagshruni þegar fjöldi lækna hvarf til starfa erlendis og aðrir sem voru að ljúka námi drógu heimkomu. Það getur verið afdrifaríkt því að þetta eru ungar fjölskyldur sem gjarnan festa rætur ef dvalið er um of, börn ganga í skóla og vaxa og dafna í hópi félaga. Þetta er hinn blákaldi veruleiki í dag og sýnir okkur það og sannar að við verðum að standa vel að uppbyggingu heilbrigðisþjónustunnar í landinu ef við eigum að fanga heim aftur unga íslenska lækna sem hverfa til náms erlendis.

Allt þetta tímabil sem um ræðir hafa heilsugæslustöðvar á landsbyggðinni verið vanfjármagnaðar og brýnustu verkefnin leyst með verktakaþjónustu og minni mannafla. Stórfelldar launahækkanir lækna á tímabilinu, þar með talin verktakalækna, hafa ekki verið bættar sem hluti launakostnaðar í launakerfi ríkisins. Ríkisendurskoðun, velferðarráðuneyti, fjármálaráðuneyti, hafa fallist á það vinnufyrirkomulag að ráða verktakalækna til starfa en þeir eru utan launakerfis ríkisins. Þegar spurt er hvort ekki eigi að bæta launahækkanir til verktakalækna verður fátt um svör og raunar horfa menn í gaupnir sér og segja: Því miður, „computer says no“. Það er hið efnislega svar.

Fyrirliggjandi fjármálaáætlun gerir ekki ráð fyrir því átaki sem þarna þarf að vinna, eftir því sem best verður séð. Ef standa á við markmið um að heilsugæslan skuli vera fyrsti viðkomustaður almennings í heilbrigðiskerfinu er nauðsynlegt að endurskoða rekstrarlíkan stöðvanna, sérstaklega á landsbyggðinni. Að auki eru málefni heilsugæslunnar sérstakt áskorunarefni í ljósi hins nýja greiðsluþátttökukerfis sem færir heilsugæslustöðvunum enn frekari verkefni í vaxandi mæli sem hliðarverðir inn í heilbrigðiskerfið. Það krefst aukins viðbúnaðar, bæði hvað varðar aðstöðu og skipan fagfólks.

Nýtt greiðsluþátttökukerfi í heilbrigðisþjónustunni var tekið í notkun þann 1. maí síðastliðinn. Gert er ráð fyrir að kostnaður vegna þess nemi um 1,5 milljörðum á ársgrundvelli. Breytingin felur í sér að sett er tæplega 70 þús. kr. þak að jafnaði á ári á greiðsluþátttöku almennra sjúklinga fyrir þjónustu heilsugæslu, sjúkrahúsa, sérgreinalækna, fyrir myndgreiningu, rannsóknir og þjálfun. Breytingin er að mestu fjármögnuð með tilfærslu á kostnaði frá þeim sem þurfa mikla heilbrigðisþjónustu til þeirra sem þurfa minni þjónustu. Það þýðir að fyrir allflesta sem þurfa tilfallandi þjónustu munu gjöld hjá sérfræðilæknum og fyrir rannsóknir og myndgreiningar hækka umtalsvert áður en þaki er náð. Við samþykkt laganna gaf heilbrigðisráðherra loforð um að þakið fyrir almenna sjúklinga yrði lækkað í um 50 þús. kr. og fjármagnað í fjárlögum fyrir árið 2017 en við það verður ekki staðið, eins og fram hefur komið, og engar breytingar að sjá samkvæmt áætluninni.

Samfylkingin telur að greiðsluþátttaka allra sé nú þegar of mikil í heilbrigðisþjónustunni, núverandi aðgerð sé vanfjármögnuð, þakið of hátt og hætta á að hækkun á kostnaði hjá stórum hluta notenda muni leiða til þess að tekjulægri hópar neiti sér um heilbrigðisþjónustu í enn meira mæli en nú er. Samfylkingin leggur til að heilbrigðisþjónusta verði gjaldfrjáls og talaði fyrir því í aðdraganda kosninga að greiðsluþátttaka sjúklinga yrði lækkuð í áföngum. Þingsályktunartillaga Samfylkingarinnar um fyrsta áfanga þess er nú á bið í velferðarnefnd og er efnislega á þá leið að heilsugæsla verði gjaldfrjáls, læknisþjónustan utan heilsugæslu fari ekki upp fyrir 35 þús. kr. á ári og greiðsluþátttaka aldraðra og öryrkja í tannlækningum verði lækkuð.

Sjúkraflutningar eru hluti af grunnþjónustu heilbrigðisþjónustunnar. Enginn samningur er lengur í gildi um sjúkraflutninga í landinu. Samningar við Rauða kross Íslands um rekstur og starfsemi sjúkrabifreiða fyrir hönd ráðuneytisins féll úr gildi fyrir tveimur árum. Ekki hefur tekist að semja að nýju þrátt fyrir umleitanir Rauða krossins sem á og starfrækir bifreiðarnar og búnað þeirra. Ráðuneytið hefur ekki gefið upp hvort samið verður við sömu aðila að nýju, hvort ráðuneytið taki þjónustuna til sín eða að þjónustan verði boðin út til einkaaðila. Skyldi liggja þarna fiskur undir steini? Samningurinn er vanáætlaður vegna aukins kostnaðar við þjónustuna sem felst m.a. í sífellt betur búnum bifreiðum sem eru í mörgum tilvikum hátæknisjúkrastofur á fjórum hjólum. Engar upplýsingar þessa efnis er að finna í fjármálaáætluninni. Þetta er ekkert smámál. Það hefur ríkt mjög farsælt og gott samstarf við Rauða kross Íslands í nærri 60 ár um þessa þjónustu. Þetta er þjónusta sem ekki er veitt af hendi í hagnaðarskyni en er Rauða krossinum mikils virði, m.a. af tilfinningaástæðum.

Hjúkrunar- og endurhæfingarþjónusta er verulegur hluti af verkefnum sem undir þennan málaflokk heyra. Samkvæmt því sem fram kemur í fjármálaáætlun eru áformuð fimm ný hjúkrunarheimili á tímabilinu til ársins 2022 en misræmi er í áætluninni um fjölda rýma sem taka á í notkun. Á bls. 68 í þessu góða riti er talað um að rýmin verði 261 en síðar í sama riti er talað um 292 rými. Þarna skeikar um 31 rými sem er kostnaður sem hleypur á ríflega 300 millj. kr. á ársgrundvelli. Þessi fjölgun er hvort heldur sem er alls ekki nægileg til þess að leysa brýnan vanda á höfuðborgarsvæðinu. Í nefndarálitinu má lesa að þessi rými eru komin niður í 212. Þau rými nægja engan veginn til að leysa vandann á höfuðborgarsvæðinu og nema líklega einungis helmingnum af áætlaðri þörf til ársins 2020. Þá er gert að auki ráð fyrir að auka dagdvalarrýmum um 150 á tímabilinu til ársins 2022. Síðan er gert ráð fyrir að bæta aðbúnað og uppfylla kröfur um öryggi og byggingarreglugerðir á mörgum stofnunum aldraðra og gert ráð fyrir að á tímabilinu verði ráðist í endurbætur á 115 rýmum. Í málaflokkinn eru áætlaðir í heild um 5 milljarðar kr. sem er hvergi nærri þeim raunverulegu útgjöldum sem af þessum verkefnum hljótast.

Starfsemi hjúkrunarheimilanna hefst í áföngum fram til 2022. Rekstur þeirra kostar á núverandi verðlagi um tæplega 3 milljarða á ársgrundvelli þegar þau verða öll komin í rekstur. Með það í huga er hins vegar varlega áætlað að rekstrarkostnaður verði á tímabilinu yfir 10 milljarða kr. 150 ný dagdvalarrými sem sömuleiðis verða tekin í notkun í áföngum kosta líklega um 1 milljarð. Endurbætur á eldra húsnæði er óviss upphæð en hleypur sennilega á 400–600 millj. kr. Niðurstaðan er því sú að inn í þennan lið vantar verulegt fjármagn ef áætlanir eiga að verða að veruleika.

Þá er á það bent að hjúkrunarheimili eru nú þegar undirfjármögnuð og mörg hver í rekstrarvanda þrátt fyrir nýlega gerðan þjónustusamning við Sjúkratryggingar Íslands. Talið er að daggjöld hjúkrunarheimilanna séu 7–10% of lág til þess að jafnvægi verði náð í rekstrinum.

Virðulegur forseti. Lyf og lækningavörur eru vörur sem Íslendingar neyta af miklum móð og meira en aðrar þjóðir í Evrópu samkvæmt endurteknum könnunum. Engin rannsókn hefur verið gerð á ástæðum þessa sem vekur athygli. Markmið yfirvalda er að fjölga innleiðingum nýrra lyfja en ekki er ljóst hvað vegur þyngst í þeim málaflokki. Það liggur hins vegar fyrir að kostnaður vegna innleiðingar nýrra lyfja og mikillar lyfjaneyslu Íslendinga almennt hefur farið fram úr áætlunum og fjármálaáætlunin virðist ekki gera ráð fyrir þeirri óumflýjanlegu þróun sem virðist blasa við, þ.e. auknum væntingum um upptöku nýrra lyfja sem fjölgar stöðugt, framþróun og öldrun þjóðarinnar.

Varðandi hjálpartæki er svipaða sögu að segja. Ný tækni skapar auknar væntingar. NPA-innleiðingin mun sömuleiðis kalla á aukinn viðbúnað að því leyti, enda geta rétt hjálpartæki skipt sköpum um lífsgæði einstaklinga sem búa við líkamlega fötlun. Ekki hefur verið hægt að uppfylla væntingar um átak í þeim efnum undanfarin ár og ekki sýnilegt í fjármálaáætlun til næstu ára að bragarbót verði gerð þar á.

Örorka og málefni fatlaðs fólks heyra undir þennan málaflokk. Löngu tímabærar breytingar á réttindum örorkulífeyrisþega í almannatryggingakerfinu til samræmis við þær breytingar sem gerðar hafa verið á réttindum ellilífeyrisþega telur Samfylkingin að sé forgangsverkefni og það var kosningaloforð núverandi stjórnarflokka fyrir síðustu kosningar. Óljós vilyrði um efndir þessa eru ekki gefin fyrr en í fyrsta lagi árið 2019. Á meðan búa örorkulífeyrisþegar við flókin, ógagnsæ réttindi almannatrygginga með krónu á móti krónu skerðingum á þann hóp sem verst stendur.

Þá leggur Samfylkingin áherslu á að áður en að starfsgetumat verður tekið upp eins og boðað hefur verið muni stjórnarmeirihlutinn kynna sér vandlega reynslu annarra landa af því og hvaða áhrif endurmatið hefur haft á kjör öryrkja t.d. í Bretlandi. Það skiptir litlu hvað það mat er kallað sem skýrir stöðu fólks sem einhverra hluta vegna er ekki með 100% starfsgetu ef ríkið eða atvinnulífið sem heild hefur engum skyldum að gegna þegar kemur að ráðningu fólks í hlutastörf eða með sveigjanlegum vinnutíma. Sumir þurfa t.d. á dýrum hjálpartækjum að halda og enn aðrir geta suma daga verið með 100% starfsgetu en í annan tíma aðeins með 20% starfsgetu. Sumir munu aldrei geta haslað sér völl á vinnumarkaði. Það þarf líka að taka tillit til aðstæðna þeirra. Einnig þarf að taka tillit til aðstæðna þeirra sem búa úti á landi þar sem atvinnulífið er ekki eins fjölbreytt og á höfuðborgarsvæðinu. Ef okkur er alvara með því að grípa til aðgerða sem stuðlað geta að því að fækka fólki með örorkumat eigum við fyrst og fremst að leggja höfuðáherslu á aukinn jöfnuð í samfélaginu, að tryggja það að allir geti búið við fjárhagslegt öryggi og lifað með reisn.

Samfylkingin áréttar að hækkun á frítekjumarki vegna atvinnutekna ellilífeyrisþega úr 25 þús. kr. á mánuði í 100 þús. kr. í áföngum á árunum 2018–2022 sé breyting sem eingöngu gagnast þeim ellilífeyrisþegum sem stunda atvinnu og hafa atvinnutekjur umfram 25 þús. kr. á mánuði, en það er lítill minni hluti. Það eru um 14% ellilífeyrisþega sem hafa yfirleitt atvinnutekjur og af þeim aðeins þriðjungur sem hefur tekjur yfir þessum mörkum. Aðgerðin mun því ekki gagnast tekjulægstu lífeyrisþegunum.

Frumvarp til laga um fatlað fólk er nú til umfjöllunar í velferðarnefnd. Lögin geta falið í sér mikla réttarbót fyrir þennan hóp ef þau komast til framkvæmda. Veigamikill þáttur þeirra er NPA þjónusta eða notendastýrð persónuleg aðstoð. Gert er ráð fyrir að í lok tímabilsins, árið 2022, verði komnir til framkvæmda í áföngum 172 samningar um þá þjónustu en vísbendingar eru um að þeir séu strax í upphafi of fáir. Sömuleiðis eru teikn um að kostnaðarforsendur séu mjög veikar, þ.e. að framkvæmd samninganna kosti meira en gert er ráð fyrir í áætluninni. Þá er óútkljáður ágreiningur ríkis og sveitarfélaga um kostnaðarhlutdeild ríkisins og það getur skipt talsverðu í áætlun þessari. Þjónustuþegar hafa líka áhyggjur af jafnræði þegar kemur að úthlutun samninga en fyrirheit eru um að þeim verði eytt með reglugerð sem enn er ekki til.

Virðulegur forseti. Tíminn flýgur sem örskot. Hvað varðar málefnasvið velferðarnefndar í heild er það í stuttu máli mat þingflokks Samfylkingarinnar að tillaga til þingsályktunar um fjármálaáætlun fyrir árin 2018–2022 skapi hvorki grundvöll að efnahagslegum stöðugleika né undirbyggi þær velferðarumbætur sem nauðsynlegar eru til að stuðla að félagslegum stöðugleika, jöfnuði og betri heilbrigðisþjónustu sem landsmenn hafa lýst yfir tugþúsundum saman að eigi að vera algjört forgangsverkefni stjórnvalda. Sú viljayfirlýsing, sú krafa almennings á Íslandi, endurspeglast ekki í þessari fjármálaáætlun.

Hv. þm. Vinstri grænna Steingrímur J. Sigfússon flutti í gærkveldi kjarnyrt yfirlit um fyrirliggjandi tillögu að þingsályktun og lauk máli sínu með því að segja að þetta væri handónýtt plagg og það ætti að sturta því niður í klósettið strax. Því er ég hjartanlega sammála en af því að Samfylkingin er umhverfssinnaður flokkur (Forseti hringir.) kjósum við enn grænni aðferð og leggjum frekar til að fjármálaáætlunin í núverandi mynd verði sett (Forseti hringir.) í pappírstætarann og að við samþykkjum nýja áætlun á endurunnum pappír þar sem fyrst og fremst verður tekið tillit til þeirra sem enn eru afskiptir; (Forseti hringir.) barnafjölskyldna, öryrkja (Forseti hringir.) og aldraða.