146. löggjafarþing — 71. fundur,  24. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[20:56]
Horfa

Halldóra Mogensen (P) (andsvar):

Frú forseti. Já, við gefum forvörnum allt of lítinn gaum. Gert er ráð fyrir 4% aukningu útgjalda til málaflokks sem kallast lýðheilsa og stjórnsýsla velferðarmála. Innan við þriðjungur af þeirri upphæð fer í lýðheilsu, í forvarnir og eftirlit. Það er bara mjög furðulegt miðað við það ástand sem við horfum fram á. Hv. þingmaður talar um starfsgetumatið, sem er víst ein leið sem ríkisstjórnin ætlar að fara til að tækla aukna örorku, þ.e. að koma fólki meira út á vinnumarkaðinn. En á sama tíma er verið að stytta atvinnuleysisbótatímabilið. Mér finnst það svo furðulegt. Hvað erum við að búa til þarna? Eru ekki líkur á því að fólk muni bara enda hjá sveitarfélögunum? Þetta er alltaf einhvers konar tilfærsla á fjármagni. Það er alltaf verið að ýta þessu frá okkur úr einum reit í excel-skjali yfir á annan, núna frá ríkinu yfir á sveitarfélögin. Ég hef dálitlar áhyggjur af því og langar til þess að heyra hvað hv. þingmanni finnst um það.