146. löggjafarþing — 71. fundur,  24. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[20:57]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Menn eru sammála um að forvarnir eru árangursríkar og mikilvægar. Ríkisstjórn eftir ríkisstjórn, heilbrigðisráðherra eftir heilbrigðisráðherra hefur sett þetta á oddinn og í ríkisstjórnarsáttmálum undanfarinna ríkisstjórna hefur það verið tekið fram að forvarnir, fyrirbyggjandi starf og þessir þættir eigi að hafa vægi. En menn þrýtur örendið. Menn hafa ekki þolinmæði. Það er auðvitað miklu árangursríkara en nokkuð annað að vinna forvarnastarf. Það á við á mörgum sviðum. Tökum sálfræðiþjónustuna, hugræna atferlismeðferð, sem menn eru sammála um að er ofboðslega fín aðferð. Hún er tímafrekari en skilar miklu betri árangri til lengri tíma. (Forseti hringir.) Við verðum að taka okkur miklu betur á að þessu leyti. En í fjármálaáætluninni er (Forseti hringir.) að vísu gert ráð fyrir aðgerðum til slysavarna á vinnumarkaði, það er góður punktur.