146. löggjafarþing — 71. fundur,  24. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[21:06]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni gott svar. Ég er hjartanlega sammála að auðvitað þarf þá að byrja á því að greina svæðin og finna út hvar skortur er á fólki og hvaða svæði þurfa á slíkum aðgerðum að halda.

Einnig ræddi hv. þingmaður um mikilvægi þess að hér væru til ný lyf, og nauðsyn þess að við drægjumst t.d. ekki aftur úr hinum Norðurlöndunum varðandi innleiðingu á nýjum lyfjum. Mig langar því að spyrja hv. þingmann: Tekur hann undir umsögn hv. þingmanns í velferðarnefnd um að nauðsynlegt sé að fara í aukið samstarf vegna kaupa á lyfjum og fá þannig aðgang að stærri mörkuðum og nýrri og betri lyfjum til þess að minnka líkurnar á því að við drögumst aftur úr vegna samþykkta á slíkum lyfjum sem væru (Forseti hringir.) til bóta fyrir þá sem á þeim þurfa að halda?