146. löggjafarþing — 71. fundur,  24. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[21:09]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla að byrja á að óska hæstv. fjármálaráðherra til hamingju með fyrstu fjármálaáætlunina sína en ég tók ekki til máls í fyrri umræðu þessa ágæta plaggs og vil því nota tækifærið hér. Mér er jafnframt tjáð að Viðreisn fagni eins árs afmæli sínu í dag. Það er full ástæða til að óska þeim til hamingju með það. Reyndar vil ég óska ríkisstjórninni allri til hamingju með að hafa tekist að vinna þetta krefjandi verkefni, að setja saman fjármálaáætlun, og það á tiltölulega stuttum tíma.

Þetta er nefnilega rosalega flott bók. Kápan er ekkert sérstaklega falleg en bókin er klárlega innihaldsrík. Þarna er farið yfir marga og stóra hluti. Ég verð eiginlega að segja að þegar ég fékk loksins tækifæri til að fara aðeins ofan í þessa ágætu áætlun varð ég býsna ánægð og stolt af okkur að vera komin á þennan stað í fjárlagavinnunni og framtíðarsýninni. Ég tók hér sæti sem varaþingmaður árið 2005, það eru orðin nokkur ár síðan, og átti þá einmitt sæti í fjárlaganefnd um tíma. Þar vorum við eftir 2. umr. að samþykkja breytingar á fjárlögunum fyrir árið 2006. Ég renndi aðeins yfir þetta. Þá vorum við til dæmis að ákveða að auka framlag til Listasafns ASÍ um 1 milljón. Við vorum að setja 1 milljón meira í Nýlistasafnið, 1,5 milljónum til Listasafns Sigurjóns Ólafssonar, við vorum að styrkja starfsemi áhugaleikfélaga um 1 milljón meira, styrkja útgáfumál um 0,4 milljónir og svo mætti lengi telja. Já, og Glímusamband Íslands, við hækkuðum líka framlag til þess um 0,5 milljónir.

Ég vona svo sannarlega að við hér á löggjafarþinginu og fjárveitingarvaldið séum komin út úr þessum ramma, að stjórnmálamenn sitji og setji hálfri og einni milljón meira inn í einstök „nitty, gritty“ — afsakið, hæstv. forseti — örsmá verkefni, og er ég ekki að gera lítið úr þeim því að þetta eru örugglega allt mjög fín og góð verkefni. En ég lít samt þannig á að það sé meira framkvæmdarvaldsins að stýra fjármunum inn í slík verkefni.

Ég hef lært töluvert í stjórnsýslu og unnið að langtímaáætlun, bæði fyrir fyrirtæki og sveitarfélög. Mér finnst það bara nokkuð flott að hér séum við komin með töflur þar sem sett eru niður verkefni og markmið. Það er aðgerðaáætlun, hún er tímasett, það er ábyrgðaraðili að henni. Og oft á tíðum, en ekki alltaf, er líka kostnaður innan þessa ramma.

Ég get alveg tekið undir það að við megum örugglega þróa okkur enn lengra í því hlutverki að setja niður kostnaðarliði á einstök verkefni en sum af þessum verkefnum eru einfaldlega þannig að þau eru kannski hluti af daglegri starfsemi og það væri í einhverjum tilfellum óðs manns æði að fara að reyna að krafla sig niður á hvern einasta lið í þeim efnum.

Ég fagna þessari áætlun. Ég held að við ættum að nota okkur það mikla eftirlitshlutverk sem felst í henni og tækifæri okkar hér á löggjafarsamkundunni til að hafa eftirlit með framkvæmdarvaldinu og fylgjast með því að þau markmið sem hér eru sett fram nái fram að ganga.

Ég sé mörg og stór tækifæri í þessu. Þá ekki síst að hér séum við að ræða stóru myndina, ekki einstaka liði. Ég held að það sé býsna mikilvægt. Mér þykir reyndar margir hv. þingmenn hafa farið of mikið niður í smáatriðin og verið komnir enn lengra í ferlinu, í eitthvað sem við förum að ræða í haust þegar við tökumst á við fjárlögin sjálf. En hér eigum við fyrst og fremst að horfa á stóru myndina. Þá er þetta, alveg eins og fram hefur komið í þessum sal, eitt af stærri málum hverrar ríkisstjórnar þar sem verið er að marka stefnuna. Hún er bara býsna skýr í þessari fjármálaáætlun.

Hv. þm. Óli Björn Kárason fór ágætlega yfir ákveðna þætti í ræðu sinni hér í gær. Ég ætla ekki að endurtaka allt sem fram kom í þeirri góðu ræðu en langar þó aðeins að hnykkja á þessum þáttum hér: Útgjöld til heilbrigðismála verða liðlega 34 milljörðum hærri að raunvirði árið 2022 en reiknað var með í fjárlögum yfirstandandi árs. Til öryrkja og málefna fatlaðra verða framlögin 14,4 milljörðum hærri. Framlög til málefna aldraðra verða tæplega 9 milljörðum hærri og útgjöld til háskóla verða rúmlega 3 milljörðum hærri en á þessu ári. Í heild verða útgjöld til málasviða fyrir utan stofnkostnað um 83 milljörðum hærri að raungildi árið 2022 en á yfirstandandi ári. Sé litið aftur til síðasta árs er hækkunin á annað hundrað milljarðar og er þá fjárfestingin ótalin.

Það er nú samt svo að ef maður hlustar á þær ræður sem fluttar hafa verið hér mætti frekar halda að við værum með einhvers konar sveltistefnu, ég held að það hafi verið það orð sem ég hef heyrt hvað oftast hér í dag. Það er kannski líka hálfeinkennilegt að fulltrúi Sjálfstæðisflokksins standi svo hér í pontu og hrósi sér af því að vera að auka samneysluna svona gríðarlega. En við fórum nefnilega alveg skýrt fram með það í kosningabaráttunni að það þyrfti að setja aukna fjármuni í innviðina vegna þeirrar stöðu sem við höfum verið í á síðustu árum.

Mig langar aðeins að fara yfir það sem kom fram í máli meiri hluta fjárlaganefndar. Þá langar mig sérstaklega að fagna breyttu fyrirkomulagi í samskiptum við sveitarfélögin. Ég held reyndar að við þurfum að móta þann þátt enn betur. Það eru mikil tækifæri í því. En afsakið, sko, gamla fyrirkomulagið var náttúrlega algerlega glatað. Ég held að flestir sveitarstjórnarmenn hafi verið algerlega sammála um að komið var á fundi með fjárlaganefnd, athygli hv. fjárlaganefndarmanna var að vísu misjöfn eftir að þangað höfðu komið fulltrúar fjölda sveitarfélaga, og svo var komið með bænalistann. Ég held að öllum beri saman um að það fyrirkomulag var ekkert sérstaklega gott. Þess vegna er betra að horfa til samtaka sveitarfélaga á ákveðnum svæðum. En við megum klárlega bæta okkur enn frekar í því.

Í nefndaráliti meiri hluta fjárlaganefndar kemur fram ákveðin gagnrýni á ferlið og gagnsæið. Ég get alveg tekið undir það. Ég held að við séum á góðri leið en við getum alveg örugglega gert betur. Við eigum að nýta það tækifæri.

Það hefur svolítið verið farið í það hvað þetta nefndarálit meiri hluta fjárlaganefndar þýði þar sem nefndin leggur ekki til breytingar á þingsályktunartillögunni en fer yfir ákveðna þætti sem betur mættu fara. Ég held reyndar að það sé mjög gott. Ég hef verið á þeirri skoðun að það sé mikilvægt að efla sjálfstæði löggjafans og eftirlitshlutverk okkar. Því finnst mér mjög brýnt að þessar ábendingar komi fram. Ég vænti þess að framkvæmdarvaldið taki þær til greina.

Mig langar svo að fara örstutt yfir það sem við fórum yfir í álitum frá þeim nefndum sem ég á sæti í. Ég á til að mynda sæti í hv. utanríkismálanefnd. Þar sögðum við, með leyfi forseta:

„Meiri hluti utanríkismálanefndar telur að hafa verði í huga hvað varðar þróunarmál að þótt aukning á framlagi Íslands til þróunaraðstoðar hafi ekki verið í samræmi við fyrri áætlanir um hlutfall af landsframleiðslu hafi framlög Íslands aukist verulega að raunvirði síðastliðin ár. Meiri hluti nefndarinnar telur aftur á móti mikilvægt að stefnt sé markvisst áfram að því markmiði Sameinuðu þjóðanna að veita sem nemur 0,7% af vergum þjóðartekjum til þróunarsamvinnu.“

Ég held að það sé mjög brýnt að við vinnum okkur áfram í þá átt.

Við förum að sjálfsögðu yfir mikilvægi þess að hagsmuna okkar sé gætt í einu og öllu í Brexit og að sjálfsögðu þarf bæði sendiráðið okkar í Brussel og utanríkisþjónustan öll að fylgjast vel með og vakta EES-samninginn okkar.

Hv. utanríkismálanefnd hafði kannski tiltölulega einfalt verkefni þar sem málaflokkarnir hjá okkur eru nú ekkert gríðarlega margir. Þeir voru ögn fleiri í umhverfis- og samgöngunefnd þar sem ég á jafnframt sæti. Mig langar aðeins að hnykkja á því að þar tölum við sérstaklega um samstarfið við sveitarfélögin og leggjum áherslu á að gætt sé samræmis milli þeirra verkefna sem sveitarfélögum eru falin og þeirra tekna sem falla sveitarfélögum í skaut til að sinna þeim verkefnum. Eins og flestum ætti að vera orðið kunnugt er ég líka sveitarstjórnarmanneskja. Það eru gríðarleg tækifæri hjá okkur í að bæta samskipti ríkis og sveitarfélaga, sérstaklega framkvæmdarvaldsins. Ég held að við séum að stíga stór skref en það er mjög mikilvægt að muna að þegar við erum að setja verkefni yfir á það mikilvæga stjórnsýslustig sem sveitarstjórnarstigið er þurfa fjármunir jafnframt að fylgja.

Ég held reyndar líka að við höfum stundum farið offari og ekki verið nógu skýr í hvar mörkin liggi. Hvað er það sem sveitarfélögin eiga að sinna og hverju á ríkið að sinna?

Þá ætla ég að fá að koma aðeins inn á almenningssamgöngur sem er nú eitt af þessum verkefnum sem er ekkert rosalega skýrt. Ég held að við séum öll sammála um mikilvægi almenningssamgangna en það er ekkert skýrt hver á að sinna þeim. Þá hnykkjum við í meirihlutaáliti okkar í hv. umhverfis- og samgöngunefnd á því að þessi fjármálaáætlun megi ekki binda hendur ríkisstjórnarinnar svo að hún geti ekki tekið þá ákvörðun að taka þátt í verkefnum um svokallaða borgarlínu og eflingu almenningssamgangna. Við höfum töluvert fjallað um almenningssamgöngur í hv. umhverfis og samgöngunefnd. Við tökum heils hugar undir þær ábendingar sem fram komu í umsögnum frá Samtökum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Við ítrekum mikilvægi almenningssamgangna og leggjum til að ríkisstjórnin fari í samstarf við sveitarfélögin um það mikilvæga verkefni að byggja upp borgarlínu.

Umhverfismálin eru jafnframt stór þáttur. Við fögnum mjög samstarfsyfirlýsingu sex ráðherra um aðgerðaáætlun Íslands í loftslagsmálum og hvetjum ríkisstjórnina til dáða í þeim efnum. Gagnrýnt hefur verið að aukna fjármuni vanti í það verkefni. Það kann vel að vera. Eins og reyndar örugglega í öll verkefni því að þegar horft er á hvert þeirra fyrir sig geta allir séð tækifæri til að nýta enn frekari fjármuni í það. En við verðum líka að horfa á heildarmyndina. Í umhverfismálum held ég að það sé mjög mikilvægt að við vinnum þetta í samstarfi margra ráðuneyta. Þetta er ekki bara verkefni umhverfisráðuneytisins þótt það beri að sjálfsögðu ábyrgð á verkefninu heldur er nauðsynlegt að umhverfismál verði hluti af daglegum rekstri og öðrum verkefnum allra ráðuneyta. Þetta er okkar allra stærsta mál á næstu árum.

Mig langar líka að koma aðeins inn á þátt sem hefur ekki verið mikið ræddur hér, netöryggi og rafræna stórnsýslu. Á bls. 202 í fjármálaáætluninni segir, með leyfi forseta:

„Stóraukin áhersla í fjarskiptum er nú á netöryggismál. Innleiðing stefnu um net- og upplýsingaöryggi hefur ekki verið fjármögnuð í heild, aðeins er gert ráð fyrir fjármagni til úttekta og kannana á stöðu öryggismála á málefnasviði[nu].“

Ég hefði að sjálfsögðu gjarnan viljað sjá stefnuna fjármagnaða í heild en einhvers staðar þarf að byrja. Ég held að úttektir og kannanir séu mjög af hinu góða og sett eru fram mjög skýr markmið í þessum kafla hvað það varðar, hverju við ætlum að ná fram í því þar sem við erum að tala um þroskastig netöryggis samkvæmt líkani sem Háskólinn í Oxford er að hjálpa okkur við að innleiða. En mig langar engu að síður að brýna framkvæmdarvaldið í þessu mikilvæga máli og þá kannski er ég að tala um meira en bara net- og upplýsingaöryggi heldur upplýsingatæknimál og rafræna stjórnsýslu í heild sinni. Við vorum nefnilega mjög framarlega á því sviði en okkur hefur farið aftur í samanburði við mörg erlend ríki. Þarna er ekki síst tækifæri til að hagræða í opinberum rekstri. Ég hef lengi talað fyrir því, og sá flokkur sem ég starfa fyrir, að það er einn af mikilvægustu þáttunum. Þegar við ákveðum að verja skattfé almennings í ýmis góð og brýn verkefni er mikilvægasta atriðið að peningunum sé vel varið og að við gætum að því að hvergi sé um tvíverknað að ræða og hagræðum eins og kostur er.

Ótrúlegt en satt er ég ekki einu sinni búin að fylla upp í tímann og ég hef heyrt marga þingmenn tala um að þessi klukka fljúgi alveg. En sökum þess að klukkan er nú bara orðin nokkuð margt og ég veit að það eru ansi margir á mælendaskránni held ég að ég ætli ekkert að keppast við að klára þennan ágæta tíma minn, enda sá ég að ég fæ tækifæri til að koma hér upp í andsvör.