146. löggjafarþing — 71. fundur,  24. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[21:26]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg) (andsvar):

Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég velti því þó samt fyrir mér varðandi fjármálaáætlun sem lýtur að fjármögnun fyrir næstu fimm árin, að þrátt fyrir að verkefnið við borgarlínu sé ekki lengra á veg komið akkúrat núna en raun ber vitni, hvort hv. þingmaður hefði ekki talið æskilegra að sjá hér í fimm ára áætlun meiri niðurnjörvun á fjármunum til þessa mikilvæga verkefnis. Ég veit að hv. þingmanni er afar annt um framgang þess.

Í seinna andsvari langaði mig aðeins til að velta fyrir mér hvað hv. þm. Bryndísi Haraldsdóttur þyki um umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga. Margt í umsögn sambandsins er gagnrýni á fjármálaáætlunina. Eitt af því sem mig langaði til að spyrja hv. þingmann um er um húsnæðisstuðninginn. Í umsögn sambandsins segir, með leyfi forseta:

„Kaflinn um húsnæðismál er rýr að vöxtum og endurspeglar engan veginn mikilvægi þessa málaflokks, sem kallar á samstilltar aðgerðir af hálfu ríkis og sveitarfélaga.“(Forseti hringir.)

Mig langar að vita nánar hvað henni finnst um þann hluta umsagnarinnar.