146. löggjafarþing — 71. fundur,  24. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[21:29]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Bryndísi Haraldsdóttur kærlega fyrir að koma og taka þátt í umræðunni. Það er einkar mikilvægt, ekki bara að hún sé hér sem þingmaður heldur hefur hún mjög mikla reynslu af sveitarstjórnarstiginu. Ég hefði áhuga á að heyra viðbrögð hv. þingmanns, hún kom aðeins inn á það í ræðu sinni, við þeirri miklu gagnrýni sem kemur frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga um skort á samráði við sveitarstjórnarstigið. Ég held að þetta hljóti að vera sérstaklega alvarlegt fyrir Sjálfstæðisflokkinn því að hann er stærsti flokkurinn á sveitarstjórnarstiginu, er í meiri hluta í öllum sveitarfélögum, fyrir utan eitt þar sem ekki er flokksbundin sveitarstjórn, í Suðvesturkjördæmi þótt þeir séu í minni hluta í Reykjavík. Gerðar eru mjög alvarlegar athugasemdir um að fjármálaáætlun sé ekki í samræmi við þegar samþykktar fjárhagsáætlanir hjá (Forseti hringir.) sveitarfélögum og geti því einfaldlega ekki gengið upp.