146. löggjafarþing — 71. fundur,  24. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[21:45]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg):

Frú forseti. Þetta er mikilvæg umræða, sem dögum saman nær að bylgjast hér um, um allsendis ófullnægjandi þingsályktunartillögu ríkisstjórnarinnar. Þannig eru þingstörfin á stundum. Við sjáum oftast ákaflega fáa eða enga stjórnarþingmenn hér. Það eru ekki þau vinnubrögð sem við viljum sjá. Ég sé ekki betur en að fyrir utan hæstv. ráðherra séu hér einn eða tveir stjórnarþingmenn og það er mjög gleðilegt.

Tilgangur ríkisfjármálaáætlunar er m.a. gagnsæi, festa í fjármálum til lengri tíma og skilvirkni. Hér er þetta sett fram undir regnhlíf sjálfbærni og framsýni, svo vitnað sé í tvö kjörorð ríkisstjórnarinnar. En því er í raun ekki að heilsa. Það mætti frekar nefna orðin ójöfnuð og ójafnrétti ef miðað er við hag þorra fólks og velferð í ljósi þessarar áætlunar. Í henni eru mörg ágæt markmið en til þess að raungera þau þurfa tekjur ríkisins að ná umfram núverandi fjárlög og fjármögnunarrammi ríkisfjármálaáætlunar verður að vera skýr, sem hann er ekki, þegar kemur að fyrsta niðurbroti til málefna. Grunnurinn að áætluninni verður að vera traustur og í almannahag, en hann er í raun sprungum settur og í hag lítils minni hluta þjóðarinnar. Ég myndi giska á 10% þjóðarinnar.

Ríkisútgjöld til fimm ára, þ.e. rammann, sjáum við í fjárlögum 2017 að viðbættum einnar línu tölum, þ.e. fáeinum upphæðum sem skipt er á fimm ára tímabil áætlunarinnar. Ég hef kallað þetta töfralínuna í sérhverjum af 34 málaflokkum. Þessa línu eina verðum við nefnilega að nota til að meta ríkisfjármálaáætlun til fimm ára með hliðsjón af núverandi útgjöldum. Þarna sést hvað bætist við ár hvert og hvar skorið er niður. Við fyrstu sýn blasa við fimm mögur ár og sú sýn styrkist við yfirferð þessa rúmlega 30 málaflokka.

Og af hverju er ríkisfjármálaáætlunin mögur? Hvað segir ramminn um það? Jú, þarna er óaðgengilegt 41,5% útgjaldaþak miðað við verga landsframleiðslu. Þarna eiga framfarir í helstu málaflokkum að miðast við jákvæða eða neikvæða hagsveiflu eins og hún sé eitthvert náttúrulögmál eða jafnvel falskt náttúrulögmál. Þarna fær nýfrjálshyggjan að ganga á hólm við velferðarkerfið, samgöngur og flesta aðra liði jafnvel framhaldsskóla landsins og háskóla. Vanfjármögnunin er þar með orðin afsökun fyrir einkavæðingu í gervi Klíníkurinnar, sameiningar Tækniskóla og Ármúlaskóla og tilvonandi einkarekstrar samgöngumannvirkja með veggjöldum í óþökk allra sveitarfélaga landsins. Allt eru þetta skýr, sértæk og vilhöll pólitísk markmið, pólitísk hagfræði. Þetta er áframhaldandi ávísun á aukinn ójöfnuð, meiri fátækt og andstæður þess, aukið ríkidæmi, þar sem nægir aurar eru fyrir eftir öllu sanngjörnu mati.

Virðulegi forseti. Hvernig fitum við ríkisfjármálaáætlun á þann hátt sem væri til alvöruúrbóta fyrir flesta, með einhvers konar félagslegum aðferðum? Við hefjum fjáröflun meðal auðmanna, stóreignafólks, og stórra fyrirtækja sem nýta auðlindir í almannaeigu. Setja má á græn gjöld og nýta heimildir til gjalda fyrir þjónustu og aðgang að náttúrunni, t.d. með komugjöldum. Við nýtum sem sagt skatta og gjaldakerfið til hins ýtrasta, ekki þó á þann hátt sem margir hægri menn reyna að kenna okkur hinum um, ekki með því að skattleggja heimilin almennt eða fyrirtækin almennt, eins og látið er í veðri vaka — ekki með því að ná í fjármagn einhvers staðar, eins og hv. þm. Páll Magnússon sagði hér í gær. Nei, þetta er ekki rétt. Við teljum hins vegar að unnt sé að ná 53–75 milljörðum á ári á ólíka vegu, þó aðallega í vasa velmegandi þegna og velmegandi fyrirtækja. Þetta er stighækkandi milli ára. Það er einmitt í stað þess að lækka skatta um 13 milljarða, eins og gert er um þessar mundir, og skapa sára fjárþörf um allt land.

Auknar ríkistekjur eru ekki sjálfkrafa ávísun á þenslu ef fjármunir eru settir í valin velferðar-, mennta- og samgönguverkefni um land allt. Lækkun ríkisútgjalda nú, niðurgreiðsla til skulda á þessum tíma, á ekki að kosta alvarlegan vanda tugþúsunda manna. Það má alveg hægja á.

Þá er komið að því að spegla ríkisfjármálaáætlunina yfir á málaflokka umhverfis- og samgöngunefndar, þar sem ég sit. Ég ætla að byrja á umsögn meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar, þ.e. stjórnarþingmannanna, og skoða tvo málaflokka af þremur á rúmlega einni síðu. Ég ætla að byrja á samgöngu- og fjarskiptamálum. Þar er tekið undir allar aðhaldskröfur í fjármálum samgangna. Rætt er um greiningarvinnu sem eigi að skoða, þensluáhrif einhverra óvissra framlaga.

Síðan segir að meiri hlutinn styðji:

„… hugmyndir um lausnir á borð við samstarfsfjármögnun ríkis og einkaaðila, sem samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra hefur meðal annars viðrað, um vegabætur á aðalumferðaræðum til og frá höfuðborgarsvæðinu.“

Sem sagt: Frekar einkavæðingu með umræddum veggjöldum sem sveitarfélögin eru á móti.

„Meiri hlutinn fagnar áformum um uppbyggingu borgarlínu og leggur sem fyrr segir áherslu á að gert verði ráð fyrir svigrúmi fyrir aðkomu ríkisins að fjármögnun verkefnisins í samstarfi við sveitarfélög …“

Með öðrum orðum: Borgarlínan er studd en, eins og kom fram í máli hv. þingmanns hér á undan, alger óþarfi er á þessu stigi að nefna hvaðan eigi að taka þessa peninga, ekki er einu sinni settur rammi að því, eins og kom fram í andsvari hv. þm. Rósu Bjarkar Brynjólfsdóttur.

Þá kem ég að umhverfismálunum í þessu meirihlutaáliti. Það eru sjö línur. Þar kemur fram, með leyfi forseta:

„Meiri hluti nefndarinnar telur ljósa nauðsyn þess að málaflokkur umhverfismála fái aukið vægi á komandi árum og leggur áherslu á að fjármagn fylgi auknum áherslum ríkisstjórnarinnar, m.a. til að ná fram markmiðum í loftslagsmálum svo Ísland geti staðið við skuldbindingar sínar samkvæmt Parísarsamkomulaginu.“

Ég minntist á þetta í andsvari við hv. þm. Bryndísi Haraldsdóttur hér á undan. Í þessu nefndaráliti er þess hvergi getið að fjármagnið sem til þess er ætlað vantar að verulegum hluta, a.m.k. að mínu mati. Það er alveg ljóst að 1,6 milljarða, að frádregnum byggingarkostnaði vegna gestastofa og fleiri bygginga, er í raun langt undan markinu þegar þess er gætt að auki að það er 2% aðhaldskrafa á stofnanir sem falla undir umhverfis- og auðlindaráðuneytið og að framlag til skógræktar, sem hefur verið skorið niður um helming frá og með hruni, er ekki aukið svo dæmi séu nefnd. Það er alveg sama hvernig menn velta þessu fyrir sér, það er mjög sérkennilegt að þetta meirihlutaálit fari svona billega með mál málanna, umhverfismálin. Því miður lít ég svo á að þetta nefndarálit sé einhvers konar Gúmmí-Tarsan, lítur vel út með sína platvöðva en innra er lítið annað en gervistyrkur.

Ég vil svo bera þetta saman við minnihlutaálit úr þessari sömu nefnd sem tekur betur á þessum málum og skýrir miklu betur hver hin raunverulega þörf er, m.a. í umhverfismálum.

Frú forseti. Í framhaldi af þessari skylduskoðun má minna á orð sem féllu í gær um 81 milljarðs aukningu ríkisútgjalda á fimm árum, eins og þar færi mikið afrek. Það var stjórnarþingmaður sem nefndi það. Þar er reyndar blandað saman fjárfestingu og rekstri, eins og hefur komið fram, en þetta er þó samtala allra þessara 34 töfralína en uppbrotið sýnir að þetta eru 16 milljarðar á ári í samanburði við útgjaldatillögur hvers árs upp á 700–800 milljarða. 2–2,3% í plús, það eru nú öll ósköpin. Þegar menn eru að slá sér á brjóst yfir þessu spyr maður sig: Er það virkilega eðlilegt aukaframlag ríkisins í góðæri til vanræktra innviðakerfa, 2–2,3% í aukningu? Ég held ekki.

En aftur að þessu minnihlutaáliti, umsögn 1. minni hluta umhverfis- og samgöngunefndar, sem á eru tveir þingmenn Vinstri grænna. Það kemur fram í samgöngumálum til fimm ára að þar er breyting til hækkunar 5,6 milljarðar. Það er lítils háttar niðurskurður 2020–2021 upp á 51 milljarð. Í orkumálum er aukning upp á 263 milljarða; niðurskurður 30 milljónir á fyrsta ári 2017–2018. Í umhverfismálum er ég búinn að rekja 300 millj. kr. niðurskurð og 1,6 milljarður eru hækkunin. Í sveitarstjórnar- og byggðamálum er 2,5 milljarða hækkun. Ef maður leggur þessar tölur saman er um að ræða 9,96 milljarða sem er þá aukning miðað við fjárlög, sem kemur fram í þessum töfralínum, í þessum litlu línum sem koma fram í lok hvers kafla. Þetta eru 10 milljarðar á fimm árum, þ.e. eftir 380 millj. kr. niðurskurð ríkisútgjalda til þessara fjögurra málefnasviða af ríflega 30. Þetta er það sem við í minni hluta umhverfis- og samgöngunefndar stóðum frammi fyrir. Við þurfum þá að gefa umsögn um það hvort við teljum þetta nægjanlegt: 5,6 milljarðar í samgöngumál og fjarskipti, 236 milljónir í viðbætur í orkumálum. 1,6 milljarða kr. viðbót í umhverfismál og 2,5 milljarða kr. viðbót í sveitarstjórnir og byggðamál. Það er kannski eini flokkurinn sem manni finnst eitthvert ljós hvíla yfir. Hitt teljum við fjarri öllu lagi. Það er ekkert hægt að koma með afsakanir eða útskýringar á því að ekki sé hægt að fara nær um það í hvað þetta fer eða að ekki sé hægt að auka þessar fjárhæðir með einhverjum ráðum. Auðvitað er það hægt, eins og ég hef lýst hér á undan. Þetta er bara spursmál um hvar peninganna er leitað eða hvort þeirra sé leitað yfir höfuð.

Þessu til viðbótar er réttmætt að líta til greina sem styðja við markmið á fyrrgreindum málefnasviðum. Þá á ég einkum við á sviði rannsókna, nýsköpunar og þekkingargreina og svo háskólastigið þar sem eru sjö háskólar. Ég get ekki betur séð en að á því fyrrnefnda megi reikna um 120 millj. kr. viðbótarframlög að meðaltali, þ.e. til rannsókna, nýsköpunar og þekkingargreina. Það eru þá 120 millj. kr. á ári á þessu fimm ára tímabili. Nú þegar eru settir fjármunir í þetta en ég er að leita að aukningunni. Menn geta rétt ímyndað sér hvaða kröfur verða gerðar á fimm ára tímabili, við skulum segja í umhverfismálum, til nýsköpunar og rannsókna og þekkingar. Ef menn halda að 120 millj. kr. í aukningu á ári dugi til þess þá fara þeir villir vegar. Ég gat ekki betur séð en að 660 millj. kr. hækkun sé í framlögum milli áranna 2017–2018 til síðarnefnda málaflokksins, þ.e. er háskólanna. Eftir það standa viðbótarframlögin í stað milli ára þar til hækkun kemur á síðasta árinu 2021–2022. Þetta er afsakað með því að háskólanemum sé að fækka. Ég get enn og aftur tekið mið af þeirri stofnun sem ég þekki svolítið til, sem er Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands, sem á m.a. að sjá fyrir náttúruvá á Íslandi. Þar eru tæki úrelt og ekki er hægt að kaupa þau. Ekki er hægt að ráða í tvær prófessorsstöður sem eru lausar og það er niðurskurður upp á tugi milljóna í kennslu og rannsóknastarfsemi þessarar stóru og mikilvægu stofnunar. Þetta er hlutur fyrir heild; svona er ástatt með mjög margar stofnanir, deildir eða heilu skólana á þessu stigi vítt og breitt um landið. Það er því engin leið að afsaka þetta, annaðhvort með því að ekki séu til peningar eða að fjárlagaramminn leyfi þetta ekki eða hvaðeina sem menn hafa sagt hér í ræðustól. Við höfum margítrekað að inni í þessu er bygging gestastofa og viðbótarhúsnæði Háskóla Íslands. Í raun eru fjármunir innan beggja þessara sviða mun lægri en kemur fram í töluliðum, svo að nemur hundruðum milljóna króna.

Borið saman við markmið ríkisfjármálaáætlunar og tilgang hennar er ljóst að markmiðum áætlunarinnar er ekki náð miðað við áætlaðar viðbótarfjárhæðir. Fullkomnar tölur á þeim fjórum málefnasviðum sem hér er fjallað um standast ekki lágmarkskröfur um aukin framlög í fimm ára áætlun á tímum örra loftslagsbreytinga, vanræktra innviða, vanfjármagnaðs velferðarkerfis og krafna um öfluga byggðaþróun. Í áætlunina vantar víðast hvar grunnupplýsingar um grófa skiptingu fjárframlaga milli málaflokka. Það vantar aðskilnað fjárfestinga og rekstrarkostnaðar og upplýsingar sem auðvelda gegnsæi svo stíga megi næsta skref til fjárlagagerðar. Og af hverju er það? Jú, það er vegna þess að ef við eigum að meta hvort þessi ágætu markmið, sem þarna eru mörg hver, eru raunverulega raunhæf, raunverulega sýnileg, að þau nái að verða að veruleika á fimm árum, dugar sú frábæra töfralína sem kemur þarna aftast í hverjum kafla ekki nema hænufet. Hún dugar til þess að afhjúpa gallana. Hún dugar ekki á neinn hátt til að sýna okkur fram á hvort þessum markmiðum sé raunverulega hægt að ná eða ekki.

Heildarniðurstaðan á þessari yfirferð, sem ég vona að hafi væri nægilega glögg, er þessi og ég ætla að lesa, með leyfi forseta, upp úr fylgiskjali 14:

„Pólitísk hagfræði ríkisstjórnarflokkanna, undirstaða fjármálaáætlunar, er andsnúin jöfnuði, samfélagslegri velferð, sjálfbærri þróun og hagsæld þorra þjóðarinnar. Henni ber að hafna.“

Svo einfalt er það og skýrt. Í næstu ræðu mun ég fjalla um nokkra af þessum 16 málaflokkum sem falla undir fjögur málefnasvið sem snúa að umhverfis- og samgöngunefnd. Ég bið virðulegan forseta að skrá mig til máls í ræðu númer tvö.