146. löggjafarþing — 71. fundur,  24. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[22:08]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Silja Dögg Gunnarsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við hv. þingmaður erum greinilega sammála þarna. Mig langar til að halda aðeins áfram með umsögn Samtaka iðnaðarins þar sem talað er um nýsköpun og rannsóknir eins og hv. þingmaður ræddi einmitt um í ræðu sinni. Á bls. 3 segir, með leyfi forseta:

„Bætt starfsskilyrði til nýsköpunar er brýnt hagsmunamál fyrir iðnaðinn og um leið samkeppnishæfni Íslands. Þar skiptir bæði máli að horfa til framgangs hugverkagreina en einnig þarf að efla rannsóknir, þróun og nýsköpun á grunni rótgrónari greina.“

Í fjármálaáætlun er enn fremur lítil viðleitni til að bregðast við þörf á markvissum hagnýtum rannsóknum og nýsköpunarstarfi til að auka framleiðni í innlendum framleiðslu- og þjónustugreinum.

Lokaorðin í umsögninni eru:

„Hins vegar má ekki missa sjónar á mikilvægi þess að treysta framleiðnivöxt til lengdar og samkeppnishæf starfsskilyrði.“

Svo virðist sem menn segi eitt í kosningabaráttu um nýsköpun og menntun og starfsnám og verknám og allt þetta. En það er ekkert í ríkisfjármálaáætlun sem bendir til þess að stjórnvöld ætli raunverulega að fara í þessa átt. Mig langar að heyra sjónarmið hv. þingmanns um þetta.